Dreki frá Hriflu og Mávur frá Mávahlíð verðlaunaðir

Á opnum fagráðsfundi í sauðfjárrækt sem haldinn var í Bændahöllinni föstudaginn 1. mars sl. voru m.a. veitt verðlaun til ræktenda þeirra sæðingastöðvahrúta sem skarað hafa frammúr. Sæðingastöðvarnar gefa verðlaunin en faghópur sauðfjárræktar hjá RML velur hrútana út frá árangri þeirra. Mávur 15-990 frá Mávahlíð var valinn besti lambafaðirinn og veittu þau Herdís Leifsdóttir og Emil Freyr Emilsson verðlaunagripnum viðtökur. Besti reyndi kynbótahrúturinn var valinn Dreki 13-953 frá Hriflu og tóku þau Vagn Sigtryggsson og Margrét Snorradóttir, bændur í Hriflu, á móti verðlaunum fyrir hann.

Mávur 15-990 frá Mávahlíð besti lambafaðirinn
Við val á besta lambaföðurnum er horft til þess hvaða sæðingahrútur kom best út sem lambaföður sl. haust. Til viðmiðunar eru ákveðin lágmörk gagnvart kynbótamat og þungaeinkunn, fullstiguð hrútlömb þurfa að vera yfir 100 talsins og síðan er sérstaklega horft til niðurstöður úr ómmælingum og stigun. Reglurnar sem hafðar eru til hliðsjónar má finna hér: https://www.rml.is/is/kynbotastarf/saudfjarraekt/hrutaverdlaun-saedingastodvanna

Mávur hefur holtið efirfarandi umsögn:
„Besti lambafaðir sæðingastöðvanna veturinn 2017 til 2018 er Mávur 15-990 frá Mávahlíð í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi. Val hans byggir á niðurstöðum úr lambaskoðunum og kjötmati haustið 2018.
Mávur er sonur Blika 12-001 frá Mávahlíð sem var sonur Gosa 09-850 frá Ytri-Skógum. Móðir hans Dröfn 12-008 var tvílembd gemlingur síðan þrisvar verið þrílembd annars tvílembd og er með 6,9 í afurðaeinkunn. Tíu af fimmtán lömbum hennar hafa verið valin til lífs. Dröfn er dóttir Hróa 07-836 frá Geirmundarstöðum. Mæður foreldra Mávs rekja uppruna sinn að miklu leyti í þá öflugu hjörð sem verið hefur í Mávahlíð í áratugi. Þar er þó einnig skammt í stöðvahrúta s.s. Abel 00-890 frá Ósabakka, Túla 98-858 frá Leirhöfn og Þrótt 04-991 frá Staðarbakka.
Mávur var fenginn til notkunnar á sæðingastöðvunum haustið 2017 að aflokinni afkvæmarannsókn fyrir úrvalshrúta á Snæfellsnesi sem fram fór að Gaul í Staðarsveit. Mávur sýndi þar mjög skýra yfirburði sem lambafaðir. Mávur hefur verið tvo vetur í notkun á stöðvunum og bæði árin verið meðal þeirra hrúta sem bændur hafa sótt mikið í að nota.
Afkvæmi Mávs er ákaflega jafnvaxin og sameina afar vel góða gerð, hóflega fitu og ágætan vænleika. Allmörg þeirra hafa erft hreinhvíta og kostaríka ull föður síns og hann því einnig öflugur kynbótahrútur hvað ullargæði varðar. Mávur stendur nú í 116 stigum í kynbótamati fyrir gerð og 118 stigum fyrir fitu. Í uppgjöri fjárræktarfélaganna 2018 fær hann 119 í fallþungaeinkunn fyrir afkvæmi sín. Mávur er frábær lambafaðir gagnvart öllum helstu eiginleikum sem horft er til við líflambaval og ber með sóma nafnbótina „besti lambafaðirinn“ framleiðsluárið 2018.“

Mávur 15-990

Mávur 15-990

Dreki 13-953 frá Hriflu besti reyndi kynbótahrúturinn
Í þessum flokki koma einungis til greina hrútar sem eiga orðið tvo árganga af dætrum tilkomnar í gegnum sæðingar, sem komið hafa til uppgjörs. Hrúturinn þarf bæði að hafa sannað sig sem lambafaðir og ærfaðir. Nánar um reglurnar má finna inn á heimasíðu RML: https://www.rml.is/is/kynbotastarf/saudfjarraekt/hrutaverdlaun-saedingastodvanna

Umsögn Dreka:

„Mesti alhliða kynbótahrútur sæðingastöðvanna árið 2019 er Dreki 13-953 frá Hriflu í Þingeyjarsveit.
Að Dreka standa sterkar ættir sem byggja á hinni öflugu fjárrækt heima í Hriflu í bland við ýmsa af fremstu kynbótahrútum landsins. Bæði faðir hans og móðurfaðir hafa verið heiðraðir sem úrvalsgripir sæðingastöðvanna en Dreki er sonur Grábotna 06-833 frá Vogum 2 og dóttursonur Borða 08-838 frá Hesti. Þá þarf ekki að rekja ættir hans langt aftur til að finna þá Hyl 01-883 og Svaða 94-998 og má því segja að talsvert „Hestsblóð“ renni um æðar Dreka.
Dreki var valinn til notkunar á sæðingastöð sumarið 2015. Hann fékk strax góðar viðtökur hjá bændum vítt og breytt um landið og hefur ávallt verið í hópi mest notuðu stöðvahrútanna þá fjóra vetur sem hann hefur þjónað þar. Samkvæmt Fjárvís.is hafa verið skráðar um 4.400 sæddar ær við Dreka. Mögulega getur sá hópur átt eftir að stækka en Dreki er enn við ágæta heilsu.
Afkvæmi Dreka eru jafnan þroskamikil, bollöng með þykkan bakvöðva, góð lærahold og hóflega feit. Hann stendur nú í 110 stigum fyrir gerð samkvæmt BLUP kynbótamati og 115 stigum fyrir fitu. Sem ærfaðir hefur hann reynst ákaflega farsæll. Dæturnar eru ríflega í meðallagi frjósamar en styrkleiki þeirra fellst þó öðru fremur í frábærri mjólkurlagni. Fyrir þann eiginleika skartar hann 114 stigum sem er framúrskarandi gott fyrir svo mikið reyndan hrút en matið byggir á uppgjöri fyrir 855 dætur.
Ættbogi Dreka er orðinn gríðar stór. Framleiðsluárið 2018 átti hann um 340 syni í notkun á landinu og er því í hópi þeirra hrúta sem eiga hvað flesta syni í notkun um þessar mundir. Þá hafa tveir synir hans þjónað á stöðvunum, þeir Drangi 15-989 frá Hriflu og Fáfnir 16-995 frá Mýrum 2.
Dreki er sannarlega einn af öflugustu alhliða kynbótagripum stöðvanna á síðari árum og er vel að því kominn að vera útnefndur „mesti kynbótahrútur sæðingastöðvanna árið 2019“.

Dreki 13-953

Dreki 13-953