Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir árið 2014 hafa nú verið birtar og ekki hægt að segja annað en að þær beri nokkurn keim af þeim framleiðsluaðstæðum sem kúabændur búa nú við. Á síðasta ári jókst mjólkurframleiðsla á landinu um 8,6% milli ára og nam samtals 133,5 milljónum lítra sem er mesta innvigtun á einu ári um áratuga skeið. Á yfirstandandi ári er ljóst að gera þarf enn betur en greiðslumark mjólkur nemur nú 140 milljónum llíta sem er nærri 5% meira en framleiðsla síðasta árs. Í árslok var framleidd mjólk til sölu í 629 fjósum og meðalinnlegg á bú með innlegg allt árið nam 213.489 lítrum. Til þess að ná 140 milljóna lítra innleggi verða þessi 629 bú að framleiða 222.576 lítra að meðaltali eða 4,3% meira en meðalbúið framleiddi á síðasta ári. Það er í sjálfu sér ekki auðvelt ef aukning síðustu ára er höfð í huga en alls ekki ómögulegt.
Í skýrsluhaldinu fjölgaði árskúm um 1.352 milli ára sem er gríðarmikil fjölgun í raun og veru. Aðalskýringin á þessari fjölgun er sú að bændur drógu úr förgun eldri gripa en fjöldi 1. burða er nánast sá sami milli ára. Á sama tíma lækkaði aldur við 1. burð aðeins, úr 29,6 mánuðum í 29,0 mánuði. Þetta er jákvæð þróun en betur má ef duga skal því enn er aldur við 1. burð alltof hár hjá verulegum hluta kúastofnsins. Heildarfjöldi burða skráður í skýrsluhaldskerfið Huppu á árinu 2014 var 25.823 samanborið við 24.927 árið áður. Þarna munar 896 burðum eða 3,6%. Tíðni dauðfæddra kálfa lækkaði milli ára og nam í fyrra 10% miðað við 12% árið áður. Það er einnig skref í rétta átt.
Afurðir eftir árskú á árinu 2014 voru 5.721 kg sem er nákvæmlega 100 kg meira en árið áður. Þetta er 1,8% aukning sem verður að teljast harla gott ef einnig er horft til fjölgunar kúa og mestu afurðir sem náðst hafa í rúmlega 110 ára sögu skýrsluhalds á Íslandi. Þetta þýðir að þær árskýr sem fjölgaði um milli ára skiluðu 7,5 milljónum lítra af þeirri 10,6 milljóna lítra aukningu sem varð milli ára. Afurðaaukningin sem nam eins og áður sagði 100 kg á árskú skilaði síðan 2,3 milljónum lítra og þeir 800 þúsund lítrar sem út af standa tilheyra þá í stórum dráttum þeim búum sem utan skýrsluhalds standa. Það má því segja að auknu innleggi hafi í stórum dráttum verið náð með fjölgun kúa að ¾ hlutum en að ¼ með auknum afurðum á hverja kú.
Áður hefur komið fram að framleiðsluaukning síðasta árs var borin uppi af þeim búum sem eru yfir meðalstærð og þarf engan að undra. Á þessum búum er í langflestum tilvikum meira svigrúm til þess að fjölga gripum auk þess sem töluverður hluti þeirra fjósa sem byggður hefur verið á undanförnum áratug var ekki kominn í fulla nýtingu. Þetta svigrúm hlýtur að hafa minnkað verulega og því ólíklegt að við náum sömu aukningu milli ára með fjölgun gripa. Eftir stendur að auka verður afurðir á hvern grip og ef við leikum okkur aðeins með tölur þarf nyt á árskú að aukast um 280 lítra til þess að ná þeirri 6,5 milljón lítra aukningu milli ára sem greiðslumark kveður á um, að því gefnu að kúm fjölgi ekki. Það þýðir að afurðir þurfa að aukast um 4,75% og verða 5.993 kg á þessu ári. Ef horft er til afurðaaukningar síðustu ára er ólíklegt að það takmark náist nema með verulegu átaki.
Ef við snúum dæminu við og gefum okkur að afurðir aukist um 1,8% þá þýðir það að afurðir þessa árs yrðu 5.824 kg á árskú sem myndi skila okkur um 2,5 milljónum lítra aukningu. Þá þyrfti fjölgun kúa að bera uppi 4 milljóna lítra aukningu og kúm að fjölga um tæplega 700.
Hvernig svo sem við snúum dæminu er ljóst að framleiðsluaukning þessa árs er krefjandi verkefni þar sem allir verða að leggjast á eitt.
/gj