Fréttir af DNA-sýnatöku úr kvígum

DNA-sýnataka samhliða einstaklingsmerkingu nautgripa hefur nú verið í gangi frá því s.l. vetur. Mælst er til þess að allar kvígur séu merktar með merkjum með sýnatökuglasi þannig að innan fárra ára verði allur íslenski kúastofninn arfgerðargreindur. Í dag er búið að merkja og skrá 1.891 kvígu í Huppu á 284 búum. Þessar kvígur eru fæddar frá og með 10. janúar til og með 17. ágúst á þessu ári. Á sama tíma hafa verið skráðar ásettar 6.153 kvígur á 493 búum. Á tímabilinu hefur því tekist að safna sýnum úr tæplega þriðjungi allra ásettra kvígna.

Með hliðsjón af því að sýnatakan fór ekki að fullu af stað í ársbyrjun er kannski réttara að skoða tímabilið frá 1. apríl til dagsins í dag. Á því tímabili hafa 3.262 kvígur verið settar á og þar af hefur verið tekið sýni úr 1.687 kvígum eða rétt um 52%. Þátttaka í sýnatökunni er því undir væntingum en þó verður að hafa í huga að afgreiðsla merkja fór hægt af stað og ekki voru öll bú komin með sýnatökumerki í byrjun apríl. Það er þó rétt að hvetja þá sem ekki hafa pantað sýnatökumerki ennþá að gera það hið fyrsta og taka þátt í þeirri byltingu ræktunarstarfsins og framfara sem nú blasir við okkur.