Fundur skandinavískra jarðræktarráðgjafa

Nú í morgun var haldinn fundur á Teams þar sem ráðgjafar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð deildu reynslu sinni og áskorunum þegar kemur að gróffóðurframleiðslu. Við hjá RML vorum að taka þátt í fyrsta skiptið, Danmörk í annað skiptið en hin þrjú löndin hafa verið í þessu samstarfi um nokkurt skeið.

Það var margt mjög fróðlegt sem fram kom. Farið var stuttlega yfir helstu þætti sumarsins sem snerti gróffóðuröflun auk þess sem hvert land var með stuttan fyrirlestur um tiltekið atriði. Á fundinum kom fram að þurrkar hafa haft áhrif á uppskeru sumarsins á einn eða annan hátt í öllum löndunum og ljóst að vandamál tengt þurrkum er að aukast, þrátt fyrir annan mun milli landa tengt uppskerumöguleikum.

Erindi frá Noregi var sérstaklega áhugavert en þar var fjallað um vandamál tengt bakteríugróum í uppskeru sem geta skaðað mjólkurafurðir þannig að þær skemmist og valdi jafnvel matareitrunum.

Það er þýðingarmikið fyrir starfsmenn RML að geta tekið þátt í samstarfi sem þessu en á fundinum voru rúmlega 30 þátttakendur sem allir vinna við ráðgjöf á sviði jarðræktar.

Meðfylgjandi mynd sýnir hluta af þátttakendum.

/okg