Gagnaöflun til kynbóta – Ómmælingar á holdablendingum

Vorið 2024 hófust ómmælingar á holdagripum á Íslandi í verkefni sem RML stýrir með styrk úr þróunarfé nautgriparæktar. Markmiðið er að efla ræktunarstarf með nákvæmari upplýsingum um þykkt vöðva- og fitulags holdagripa og styðja við val á ásetningi með betri kjötgæðaeiginleika.

Ómmælingar eru framkvæmdar með ómsjá sem gefur upplýsingar um bakvöðva og fitulag gripa. Aðferðin hefur verið notuð í nautgriparækt erlendis í áratugi og sýnt sig sem öflugt verkfæri í kynbótum. Á Íslandi hafa ómmælingar verið notaðar í sauðfjárrækt frá 1991, en þetta er í fyrsta sinn sem þær eru nýttar markvisst í holdanautgriparækt.

Mælingar voru framkvæmdar á 416 gripum á átta búum víðsvegar um landið. Gripirnir voru af blönduðu holdakyni, þar á meðal angus, galloway og íslenska mjólkurkúakyninu. Meðaltal ómvöðva var 55,8 mm og ómfitu 5,07 mm, sem er í góðu samræmi við norskum mælingum.

Sterk fylgni reyndist milli þyngdar og brjóstmáls, sem gefur möguleika á að spá fyrir um þunga með einföldum mælingum. Þetta er sérstaklega gagnlegt þar sem aðstaða til vigtunar er takmörkuð á mörgum búum.

Með árlegri gagnaöflun og tengingu við ætterni og sláturgögn má byggja upp traust kynbótamat sem styður við framleiðslu á hágæða nautakjöti.

Á myndinni eru Ditte Clausen og Linda Margrét Gunnarsdóttir

Sjá nánar: 
Gagnaöflun til eflingar ræktunarstarfs holdagripa

/okg