Líkt og tilkynnt var sl. vor, þá kom í ljós á liðnum vetri að hrúturinn Glampi 24-943 frá Hafrafellstungu bæri erfðavísi fyrir bógkreppu. Þetta var niðurstaða erfðaprófs en allir hrútar sem voru á sæðingastöð síðasta vetur voru skimaðir fyrir þessum galla en því miður bárust niðurstöður fyrir Glampa ekki fyrr en eftir fengitíð.
Bændur eru hvattir til að taka sýni úr álitlegum ásetningsgripum undan Glampa og fá þau prófuð fyrir bógkreppu. Helmingslíkur eru á að hvert afkvæmi beri gallann. Í raun á það sama við varðandi afkvæmi Viðars 17-844 frá Bergsstöðum og eru bændur einnig hvattir til að taka sýni úr þeim.
Best er að taka sýnin í hylki, líkt og notuð eru vegna riðuarfgerðargreininga. Sýnið er hægt að skrá á gripinn inn í Fjárvís undir „forskráning á öðrum arfgerðargreiningum“. Skrá skal Matís sem greiningaraðila. Það liggur þó enn ekki fyrir hvort sýnin verði greind hérlendis eða erlendis og því ekki ljóst hve langan tíma tekur að fá niðurstöður en markmiðið er að fá sýnin greind fyrir fengitíma. Sýnum skal skilað inn til RML, líkt og þegar um riðuarfgerðarsýni er að ræða og þarf því að koma sýnunum annað hvort á starfsstöð RML í Reykjavík eða á Hvanneyri.
Sýnin þarf að merkja vel og hafa sér í poka. Þar komi fram frá hverjum sýnin eru, úr hvaða grip og hver sé greiðandi. Gjald fyrir hvert sýni verður að hámarki 3.000 kr en hugsanlega talsvert lægra, en það fer eftir þátttöku í greiningunum.
Á meðfylgjandi mynd er Glampi 24-943.
/okg