Gullbrá 357 á Hóli á Upsaströnd komin yfir 100 þús. kg mjólkur

Gullbrá 357, Hóli. Mynd: Karl Vernharð Þorleifsson.
Gullbrá 357, Hóli. Mynd: Karl Vernharð Þorleifsson.

Við áramót setjast menn gjarnan niður, líta yfir farinn veg og vega og meta árangur og annað sem gerst hefur á árinu. Nú á haustdögum gerðist það að ein íslensk mjólkurkýr bættist í hóp þeirra fáu hérlendu kúa sem náð hafa 100 þús. kg mjólkur í æviafurðir. Á það er ekki dregin nein dul að þetta er gríðarmikið afrek hjá kú af nautgripakyni þar sem meðalnyt er rúmlega 6.000 kg á ári en það tæki meðalkúna um 16 ár að ná slíkum afurðum. Hér er um að ræða Gullbrá 357 á búi Þorleifs Kristins Karlssonar á Hóli á Upsaströnd en hún stóð um mánaðamótin nóv./des. 2022 í 101.841 kg mjólkur. Gullbrá er fædd 9. apríl 2004 á Hrafnsstöðum við Dalvík en flutti einungis nokkurra daga gömul að Hóli þar sem hún hefur haft aðsetur alla tíð síðan. Hún er undan Hvítingi 96032 og Rák 316, sonardóttur Búanda 95027. Gullbrá bar sínum fyrsta kálfi 10. október 2006 og hefur borið 10 sinnum síðan þá, nú síðast í júní 2022. Mestum afurðum á ári náði hún 2017 þegar hún mjólkaði 8.182 kg og 2020 náði hún 8.180 kg. Mestar afurðir á einu mjólkurskeiði voru 13.505 kg á sjötta mjólkurskeiði sem var í lengri kantinum. Gullbrá fékk sinn útlitsdóm 15. maí 2007 og hlaut 84 stig, þar af 17 stig fyrir júgur, 16 stig fyrir spena og 18 fyrir mjaltir. "Þetta er einstakur gripur sem gefur okkur ennþá bestu kýrnar í fjósinu og kýrnar út af henni eru með betri kúnum sem við eigum", sagði Karl Vernharð, sonur Þorleifs bónda á Hóli, í samtali við undirritaðan í fyrra. Þessi orð segja kannski allt sem segja þarf um gripi sem þessa en Gullbrá hefur sýnt einstaka endingu og heldur sér með ólíkindum vel.

Meðfylgjandi myndir af Gullbrá tók Karl Vernharð Þorleifsson.