Hefur eignast tíu kálfa í fimm burðum

Stjarna 996. Mynd: Finnur Pétursson.
Stjarna 996. Mynd: Finnur Pétursson.

Á mánudagskvöldið (26. janúar s.l.) eignaðist Stjarna 996 í Káranesi í Kjós tvíkelfinga, tvær kvígur. Þetta væri svo sem ekki fréttnæmt nema af því að kýrin var að eignast tvíkelfinga í fimmta sinn, hefur aldrei eignast nema tvíkelfinga. Slíkt er einstakt, í það minnsta afar fáheyrt. Stjarna hefur nú eignast 8 kvígur og 2 naut í fimm burðum. Að sögn ábúenda í Káranesi (á karanes.is) gekk burðurinn gekk vel, Stjarna sá um það sjálf, án utan að komandi aðstoðar. Kvígurnar tvær sem fæddust hafa fengið nöfnin Pandóra og Díóna, en "stjörnufræðin" er þemað í nafngiftum afkvæma Stjörnu. Pandóra og Díóna eru í hópi hundruða fylgitungla Satúrnusar. Stjarna er fædd 6. júlí 2019 undan Úranusi 10081 og móðir hennar er Súra 651 Dynjandadóttir 06024. Stjarna bar fyrstu dætrum sínum rétt tæplega tveggja ára, þann 30. júní 2021. Undan Stjörnu og Bikari 16008 var tekinn nautkálfur á stöð í þetta eina skipti sem hún hefur eignast nautkálfa. Hann kom því miður ekki til notkunar þar sem hann reyndist vera með gallaða fótstöðu.

Hér fyrir neðan má sjá myndir af þeim Stjörnu 996 og dætrum hennar, Pandóru 1480 og Díónu 1481.

Stjarna 996. Mynd: Finnur Pétursson.

Pandóra 1480 og Díóna 1481, dætur Stjörnu 996 og Madda 23022.
Mynd: Finnur Pétursson.