Heiðursverðlaunahryssur 2017 – Nýtt kynbótamat

Hvíta-Sunna frá Sauðárkróki. (Mynd: hervar.com)
Hvíta-Sunna frá Sauðárkróki. (Mynd: hervar.com)

Hið alþjóðlega kynbótamat fyrir íslensk hross var reiknað og uppfært nú í lok september. Hvað afkvæmahryssurnar varðar kom í ljós að fimm hryssur hljóta heiðursverðlaun fyrir afkvæmi í ár en lágmörk til þeirra verðlauna eru að að minnsta kosti fimm dæmd afkvæmi og 116 stig í kynbótamati aðaleinkunnar. Þessar hryssur eru (fjöldi dæmdra afkvæma í töflu á við fjölda afkvæma sem hlotið hafa fullnaðardóm):

Efsta hryssan í ár er Hvíta-Sunna frá Sauðárkróki og hlýtur hún því Glettubikarinn. Hvíta-Sunna stendur mörgum í fersku minni en hún stóð efst í elsta flokki hryssna á Landsmóti á Vindheimamelum 2006 með 8.55 í aðaleinkunn; skrefmikill og ganghreinn gæðingur og ekki spillti liturinn – leirljós, blesótt. Hvíta-Sunna er undan Spegli frá Sauðárkróki, Fánasyni og Vöku frá Sauðárkróki, Angadóttur. Ræktandi er Sveinn Guðmundsson yngri og eigandi er Sauðárkróks-Hestar. Hún hefur skilað sex hrossum í dóm og hafa þar af fimm hlotið fyrstu verðlaun. Hæst dæmda afkvæmi Hvíta-Sunnu er Arís frá Sauðárkróki undan Kráki frá Blesastöðum 1A en Arís er frábær alhliða gæðingur með 8.81 fyrir hæfileika. Þá er Særún afar flink alhliða hryssa undan Aðli frá Nýja-Bæ, Dagfari litfagur alhliða stóðhestur undan Hróðri frá Refsstöðum og Sædögg, frábær klárhryssa með fyrstu verðlaun undan Kvisti frá Skagaströnd.

Önnur í röð er Dóra frá Hlemmiskeiði 3 en aukastafir skilja að hryssurnar í öðru til fjórða sæti. Ræktandi hennar og eigandi er Inga Birna Ingólfsdóttir á Hlemmiskeiði 3. Dóra er undan Gusti frá Hóli og Dröfn frá Nautaflötum sem var undan Ófeigi frá Flugumýri. Hún fór í sinn hæsta dóm sjálf árið 2006 á Landsmóti á Vindheimamelum. Hún var jafnvíg alhliða hryssa og hlaut 8.57 fyrir hæfileika og 8,45 í aðaleinkunn og varð þriðja í sex vetra flokki á mótinu. Dóra hefur nú þegar skilað fimm hrossum í dóm, þar af fjórum í fyrstu verðlaun en Jóra frá Hlemmiskeiði 3 er klárhryssa með 9.0 fyrir tölt undan Kráki frá Blesastöðum 1A. Þá er Pála undan Dóru og Stála frá Kjarri. Hún stóð efst í fjögurra vetra flokki hryssna á Landsmóti 2012 í Reykjavík, fínleg, flugviljug og flennivökur. Hæst dæmda afkvæmi Dóru er Kamma frá Hlemmiskeiði 3 undan Mjölni frá sama bæ en það er falleg alhliða hryssa.

Þriðja í röð er svo stórgæðingurinn Gunnvör frá Miðsitju, undan Spuna frá Miðsitju og Drottningu frá Sólheimum. Gunnvör hefur verið á mikilli uppleið í kynbótamatinu út á afkvæmin, hún byrjaði frekar neðarlega vegna þess hversu fá hross eru dæmd móðurmegin en dæmd afkvæmi hækka hana um 7 stig í kynbótamatinu. Ræktandi er Jóhann Þorsteinsson en eigandi er Kári Stefánsson. Gunnvör fór hæst í 8.69 fyrir hæfileika og varð í fimmta sæti á Landsmóti 2002. Gunnvör er gæðingamóðir en þrjú afkvæma hennar hafa hlotið 8.70 eða hærra fyrir hæfileika. Hæst dæmda afkvæmið er Villingur frá Breiðholti í Flóa undan Grun frá Oddhóli með 8.93 fyrir hæfileika en Gunnvör á þrjú afkvæmi með Grun frá Oddhóli, öll með fyrstu verðlaun og er þar um töluverða Miðsitju-blöndu að ræða en Grunur er undan Kraflari frá Miðsitju. Þá kom í dóm í vor hryssan Krafla frá Breiðholti í Flóa, undan Ómi frá Kvistum. Hún hlaut 8.77 fyrir hæfileika, fimm vetra gömul – feykilega flink og fylgin sér og á eflaust eftir að láta meira að sér kveða í framtíðinni.

Fjórða í röð er svo Kolbrá frá Varmalæk, undan Kormáki frá Flugumýri og Kolbrúnu frá Sauðárkróki sem var heiðurverðlauna hryssa undan Hrafni frá Holtsmúla og Hrafnhettu frá Sauðárkróki og er hún því systir til dæmis Makkar frá Varmalæk sem er þekktur heiðursverðlauna hestur í Svíþjóð. Ræktandi hennar og eigandi er Björn Sveinsson á Varmalæk. Kolbrá hefur reynst afar farsæl ræktunarhryssa. Góður hópur hrossa er kominn í dóm undan Kolbrá eða átta afkvæmi og þar af hafa sex hlotið yfir átta í aðaleinkunn. Hæst dæmda afkvæmi hennar er Nátthrafn frá Varmalæk undan Huginn frá Haga, mýktargæðingur með 8.83 fyrir hæfileika. Þá er Hetja frá Varmalæk afrekshross með 8.78 fyrir hæfileika, undan Tind frá Varmalæk. Einnig er hryssan Súla frá Varmalæk undan Kolbrá og Þokka frá Kýrholti. Súla var eftirminnileg alhliða hryssa en undan henni kom til dóms í vor stóðhesturinn Krummi frá Tjarnarstöðum sem er eftirtektarverður mýktar hestur.

Fimmta í röð er svo Andvör frá Breiðumörk 2, undan Andvara frá Ey og Hettu frá Breiðumörk 2, ræktandi hennar er Sigurður Stefánsson en eigendur eru Daniela Gscheidel og Stefán Sveinsson á Útnyrðingsstöðum, þaðan sem öll hennar afkvæmi koma. Andvör var eðlisgæðingur með mikla skreflengd og hreinar gangtegundir, hlaut sinn hæsta dóm á Landsmóti 2004 á Hellu þar sem hún fékk 8.58 fyrir hæfileika og varð í fimmta sæti í sex vetra flokki. Andvör hefur skilað fimm hrossum í dóm, þar af fjórum með hærra en 8.00 í aðaleinkunn. Hæst dæmda afkvæmi hennar er Kvaran sem er undan Markúsi frá Langholtsparti með 8.37 í aðaleinkunn. Þá kom Dreki frá Útnyrðingsstöðum í dóm í sumar og hlaut 8.56 fyrir hæfileika en hann er undan Krafti frá Efri-Þverá og hlaut m.a. einkunnina 9.0 fyrir tölt, brokk og skeið.

Eins og sjá má er þetta góður hópur hryssna sem hlýtur heiðursverðlaun í ár og eru þær allar vel að viðurkenningunni komnar. Þessar heiðurshryssur verða allar verðlaunaðar á hinni árlegu Hrossaræktarráðstefnu fagráðs sem fer fram laugardaginn 28. október og verður nánar auglýst síðar.

þk/okg