Hrútafundir á næstu vikum

RML og búnaðarsamböndin verða nú á næstu vikum með sameiginlega  "hrútafundi" aftur eftir Covid hlé.

Markmið  þessara funda er að kynna hrútakost sæðingastöðvanna. Þetta er líka mikilvægur vettvangur til að ræða ræktunarstarfið. Það er ýmislegt sem brennur á mönnum, enda hefur ekki verið tækifæri til að halda þessa fundi núna í tvö ár.

Fundirnir eru eins og áður sagði haldnir af búnaðarsamböndunum í samstarfi við RML. Gert er ráð fyrir að fundirnir hefjist um leið og hrútaskráin kemur úr prentun, fyrstu fundir verða haldnir 21. nóvember.

Í hrútaskránni verða kynntir 23 nýir hútar en í heildina saman stendur flotinn af 47 hrútum á sæðinastöðvunum í Þorleifskoti og Borgarnesi. Þá verður að finna eitthvað fræðsluefni í skránni, m.a. grein um erfðagallann bógkreppu.

Það má segja að hrútakosturinn í ár marki ákveðinn tímamót þar sem nú verður í fyrsta skipti boðið upp á hrúta með hina svokölluðu ARR arfgerð sem er verndandi gegn riðuveiki og hrúta með breytileikann T137 sem miklar vonir eru bundnar við að veiti einnig vernd. Alls verða 19 hrútar í vetur sem bera arfgerðir sem bundnar eru vonir við að séu lítið næmar eða verndandi, en rannsóknir á því eru í gangi. Hugsanlega verður hægt að greina frá niðurstöðum úr fyrstu rannsóknum á samanburði á næmleika mismunandi arfgerð fyrir riðuveiki á fundunum.

/okg