Hrútaskráin 2025-26 er komin á vefinn

Forsíða Hrútaskráarinnar 2025-26. Mynd: Halla Eygló Sveinsdóttir.
Forsíða Hrútaskráarinnar 2025-26. Mynd: Halla Eygló Sveinsdóttir.

Hrútaskrá sauðfjársæðingastöðvanna fyrir 2025-26 er komin á vefinn. Skráin er á hefðbundnu pdf-formi og hægt er nálgast hana undir "Kynbótastarf -> Sauðfjárrækt -> Hrútaskrá" eða með því að nota hlekkinn hér neðar. Skráin er eflaust mörgum kærkomin lesning, nú þegar daginn er tekið að stytta verulega og svartasta skammdegið tekið við. Við vonum að sauðfjárræktendur og aðrir áhugamenn um sauðfjárrækt njóti lesningarinnar þar til prentaða útgáfan kemur út í næstu viku og verður m.a. dreift á hinum svokölluðu hrútafundum.

Skráin er 56 síður að stærð, litprentuð í A4-broti og inniheldur upplýsingar um 46 hrúta sem notaðir verða til sæðinga í vetur. Hrútakosturinn er gríðarlega öflugur þrátt fyrir að vera að mestu leyti skipaður lambhrútum. Þannig eru aðeins 11 hrútar sem hafa verið áður á stöð en 35 ungliðar koma nú fram á sjónarsviðið, hver öðrum betri. Þessi mikla endurnýjun er liður í innleiðingu verndandi arfgerða gegn riðu og er ekki annað að sjá en ræktun gegn riðu samhliða ræktun fyrir kjötgæðum og öðrum kostum gangi vonum framar. Í það minnsta ber hrútakosturinn þess merki. Þá eru aðrir valkostir í boði, þ.e. feld- og forystufjárhrútar. Ritstjóri skráarinnar er Guðmundur Jóhannesson en efni skráarinnar er að mestu tekið saman og skrifað af Árna B. Bragasyni, Eyþóri Einarssyni og Fanneyju Ólöfu Lárusdóttur. Flestar ljósmyndir í skránni eru teknar af Höllu Eygló Sveinsdóttur en auk hennar tóku Birna Sigurðardóttir og Torfi Bergsson myndir af hrútum. Sigurður Kristjánsson og Þórdís Þórarinsdóttir komu að yfirlestri prófarka. Rósa Björk Jónsdóttir sá um uppsetningu og umbrot og prentun er í höndum Fjölritunar- og útgáfuþjónustunnar í Borgarnesi. Hér með er þökkum til þessara aðila og fjölmargra annarra er lögðu hönd á plóg komið á framfæri en að baki liggur mikil vinna sem sinna þarf á stuttum tíma. Þá er auglýsendum þakkað sérstaklega þeirra framlag sem gerir þessa útgáfu mögulega í því formi sem hún er.

Njótið vel!

Sjá nánar:

Hrútaskrá