Hvernig komu stöðvahrútarnir út í haust?

Gullmoli 22-902
Gullmoli 22-902

Nú eru lambadómum að mestu lokið. Meirihluti dómanna ratar strax inn í Fjárvís en þó er eitthvað af dómum sem enn eru óskráðir. Bændur eru hvattir til að skrá alla dóma sem fyrst, en framundan er vinna við hrútaskrá og þá er mikilvægt að sem mest af upplýsingum um syni sæðingastöðvahrútanna liggi fyrir. Hér með er því biðlað til þeirra sem lúra á óskráðum dómum að koma þeim inn i Fjárvís, í síðasta lagi föstudaginn 27. október.

Staðan á dómaniðurstöðum í Fjárvís, mánudaginn 23.10 er sú að 4.204 synir stöðvahrúta hafa verið stigaðir. Þeir vega að meðaltali 48,1 kg og bakvöðinn í þeim mælist að meðaltali 31,7 mm. Þegar allir dómar voru komnir inn fyrir árið 2022 voru stigaðir hrútar 4.336, meðal þungi á fæti 47,6 kg og bakvöðvinn 31,2. Það er því útlit fyrir að stigaðir hrútar í ár verði fleiri en árið áður, talsvert þyngri, bakvöðvinn þykkari og fitan meiri.

Gimsteinn 21-899 á núna stærsta hópinn af stigðum hrútum, eða 358 syni. Það eru synir Ramma 18-834 frá Hesti sem eru með þykkasta bakvöðvann en 95 synir hans eru með 33,8 mm vöðva að jafnaði. Þrír hrútar eru jafnir þegar horft er til hæst stiguðu bræðrahópanna. Það eru Gullmoli 22-902 frá Þernunesi, Glæsir 19-887 frá Litlu-Ávík og Sævar 21-897 frá Ytri-Skógum en synir þeirra hafa að meðaltali 85,8 stig. Gullmoli hefur jafnframt hæsta meðaltalið fyrir lærastig, en synir hans standa nú í 18,2 stigum að meðaltali.

Í meðfylgjandi skjali eru meðaltölin eins og þau eru í dag og eru þau birt óleiðrétt fyrir þunga. Væntanlega mun aðeins bætast við þessi gögn á næstu dögum og verður áhugavert að sjá hvort það breyti stöðunni eitthvað hjá hrútunum. Endanlegt uppgjör á þessir töflu verður svo birt í næstu hrútaskrá.

Sjá nánar: 
Synir stöðvahrúta 

/okg