Jana 432 á Ölkeldu 2 er búin að mjólka yfir 100 þús. kg mjólkur

Jana 432 á Ölkeldu 2, f. Stígur 97010
Jana 432 á Ölkeldu 2, f. Stígur 97010

Afrekskýrin Jana 432 á Ölkeldu 2 í Staðarsveit á Snæfellsnesi hefur nú bæst í hóp þeirra afreksgripa sem rofið hafa 100 tonna múrinn í æviafurðum. Nú um áramótin hafði hún mjólkað 100.449 kg mjólkur yfir ævina en hún var í 12,0 kg dagsnyt þann 28. desember s.l. Það má því ætla að hún hafi mjólkað sínu 100 þús. kg mjólkur nærri mánaðamótum nóv./des. Jana 432 er fædd 8. mars 2005, dóttir Stígs 97010 og Pílu 437 Kaðalsdóttur 94017. Jana bar sínum fyrsta kálfi þann 18. september 2007 og hefur borið níu sinnum síðan þá, síðast 28. desember 2017. Mestum afurðum á einu ári náði Jana árið 2013 þegar hún mjólkaði 10.372 kg en hún náði einnig ársafurðum upp á meira en 10 þús. kg árið 2018. Mestu mjólkurskeiðsafurðir hennar eru á yfirstandandi mjólkurskeiði sem er æði langt, spannar orðið tvö ár. Hún er nú komin í 15.694 kg frá síðasta burði. Illa hefur gengið að koma kálfi í Jönu eftir síðasta burð en hún var síðast sædd 11. nóvember s.l. og gæti því verið fengin. 

Afkomendur Jönu eru fjölmargir víða um land en hún skilaði nauti á stöð sem fór í dreifingu sem reynt naut. Þar er um að ræða Öllara 11066 en faðir hans var Ófeigur 02016.

Eðlilega hefur tímans tönn sett mark sitt á Jönu enda fáar kýr sem bæði ná þessum aldri og afurðum. Það að kýr nái 15. vetra aldri í dag er að verða afar fátítt og hvað þá að þær skili slíkum afurðum. Það verður þó seint sagt annað en að Stígur 97010 hefur skilað fjölmörgum endingargóðum kúm. 

Það er full ástæða til að óska ábúendum á Ölkeldu 2 til hamingju með þessa farsælu og endingargóðu kú sem Jana hefur reynst vera.

/gj