Jarðvegssýni eru mikilvægur þáttur í bústjórninni

Það er mikilvægt að hafa sem bestar upplýsingar í höndum þegar ákveða þarf áburðarþarfir á tún og akra og áburðargjöf í framhaldi af því. Eitt af því eru upplýsingar um ræktunarlandið og innihald jarðvegsins af aðgengilegum næringarefnum. Í tímans rás vill það breytast m.a. vegna meðferðar túna, ræktunar og áhrifa frá áburðargjöf. Sum næringarefni safnast upp í jarðvegi meðan það gengur á önnur o.s.frv. Með jarðvegsefnagreiningum má fylgjast með þessum breytingum en almennt er ráðlegt að taka jarðvegssýni á 4-8 ára fresti úr ræktunarlandi. Of víða er þessum þætti í bústjórninni ekki sinnt nægjanlega vel.

Þær mælingar sem mest er horft á eru sýrustig (pH) jarðvegsins og innihald hans af fosfór (P), kalsíum (Ca), magnesíum (Mg) og kalí (K). Auk þessara megin næringarefna er einnig mælt natríum (Na) og snefilefnin mangan (Mn), kopar (Cu) og sink (Zn). Einnig er mæld rúmþyngd jarðvegsins og gefur það vísbendingar um samsetningu hans.

Framundan er sá tími sem ráðunautar RML verða á ferðinni um sveitir landsins við sýnatöku. Til þess að skipuleggja megi þær sem best eru bændur hvattir til að panta sem fyrst sýnatöku hjá RML ætli þeir að nýta þá þjónustu í haust.

Tekið er við pöntunum á heimasíðu RML ( rml.is ) þar sem finna má hnapp til að panta sýnatöku. Einnig er tekið við pöntunum í síma 5165000.

Ætla má að fyrir 3-5 jarðvegssýni sé kostnaður við sýnatöku, umsýslu og túlkun á niðurstöðum 16-25 þúsund kr. (verð án vsk.). Við bætist svo kostnaður af greiningu á sýnunum en hjá Efnagreiningu á Hvanneyri kostar hún 7.405 kr. fyrir hvert sýni. Þangað verða sýnin send nema um annað sé beðið.

el/okg