Kynbótasýningar 2019

Nú er búið að stilla upp áætlun fyrir kynbótasýningar árið 2019 og er hún komin hér inn á vefinn. Opnað verður á skráningu á kynbótasýningarnar um miðjan apríl og nánar verður þá tilkynnt um skráningarfresti á einstakar sýningar.

Sýningaáætlun 2019:
• 20.05 - 24.05 Sörlastaðir Hafnarfirði
• 27.05 - 31.05 Borgarnes
• 27.05 - 31.05 Brávellir Selfossi
• 03.06 - 07.06 Sprettur Kópavogi
• 03.06 – 07.06 Gaddstaðaflatir
• 03.06 – 07.06 Hólar Hjaltadal
• 03.06 – 04.06 Fljótsdalshérað
• 11.06 – 14.06 Sprettur Kópavogi
• 11.06 – 14.06 Gaddstaðaflatir
• 18.06 – 21.06 Akureyri

• 11.07 – 14.07 Fjórðungsmót Austurlands

• 15.07 - 19.07 Gaddstaðaflatir
• 22.07 - 26.07 Gaddstaðaflatir
• 22.07 - 26.07 Hólar Hjaltadal

• 19.08 - 23.08 Brávellir Selfossi
• 19.08 - 23.08 Akureyri
• 19.08 - 23.08 Borgarnes

Sýningaáætlunin er með sama sniði og síðastliðin ár. Sýningarnar hefjast á Sörlastöðum 20. maí og enda á Akureyri 21. júní. Tvær sýningar eru fyrir norðan í vor og var ákveðið að hafa viku á milli þeirra til að knapar gætu betur nýtt seinni möguleikann til sýninga. Þá verður boðið upp á tvær vikur fyrir miðsumarssýningar á Suðurlandi. Miðsumarssýning á Gaddstaðaflötum hefur verið stærsta sýning ársins á árunum á milli landsmóta undanfarið. Sú sýning hefur verið í viku með tveimur dómnefndum. Nú var ákveðið að bjóða upp á tvær vikur í ár með einni dómnefnd að störfum báðar vikurnar.

Fjórðungsmót
Fjórðungsmót verður haldið á Austurlandi í ár; að Fornustekkum í Hornafirði. Hross sem eru í eigu aðila á Austurlandi en einnig í Eyjafirði, Þingeyjarsýslum og í Rangárvallasýslu eiga þátttökurétt á mótinu. Ákveðinn fjöldi efstu hrossa í hverjum flokki eiga þátttökurétt á mótinu og er því ekki um einkunnalágmörk að ræða. Heildarfjöldi kynbótahrossa á mótinu og skipting þeirra á milli flokka verður birt fljótlega. Til að auðvelda bestu klárhrossum með tölti að komast inn á mótið verður 10 stigum bætt við aðaleinkunn klárhrossa í sætisröðun hrossa inn á mótið. Þetta er sama leið og var farin fyrir síðasta landsmót hvað klárhrossin varðar. Þegar kynbótasýningarnar byrja í vor verður birtur stöðulisti í WorldFeng sem sýnir hvaða hross eru inni á mótinu hverju sinni. Ef fleiri en eitt hross eru jöfn í síðasta sæti inn á mótið þá er þeim öllum heimil þátttaka á mótinu. Eins verða eigendur hrossa sem vinna sér þátttökurétt á mótinu en ætla sér ekki að mæta með þau af einhverjum ástæðum beðnir um að láta vita fyrir ákveðna dagsetningu, þannig að hægt sé að bjóða hrossum sem eru neðar á listanum þátttöku á mótinu.

Heimsleikar
Heimsleikar verða haldnir í ár í Berlín dagana 4. til 11. ágúst. Kynbótahross verða sýnd á mótinu eins og verið hefur og veljum við Íslendingar efstu hross sem völ er á í hverjum flokki fimm, sex og sjö vetra og eldri hryssna og stóðhesta. Höfum við valið eitt hross í hverjum flokki og verður það gert þannig í ár. Valið þarf að liggja fyrir á fyrstu dögum júlímánaðar og verður það því árangur á vorsýningum sem mun liggja valinu til grundvallar.

Það stefnir í spennandi ár hvað kynbótahrossin varðar með Fjórðungsmóti og Heimsleikum og er það tilhlökkunarefni að sækja Hornfirðinga heim jafnt sem Berlínarbúa. Hlökkum við hjá RML til samstarfsins við hestamenn í ár sem endranær og minnum á að við erum til þjónustu reiðubúin. Bestu kveðjur í bili.

þk/okg