Kynbótasýningar 2020 og val kynbótahrossa á Landsmót

Nú er búið að stilla upp áætlun fyrir kynbótasýningar árið 2020. Áætlunin er að sjálfsögðu birt með fyrirvara um breytingar sem gætu orðið vegna Covid-19 faraldursins. Þar sem Landsmót er viku seinna í ár en undanfarin ár, getum við byrjað kynbótasýningarnar viku seinna einnig og verið þrjár vikur í júní við dóma. Opnað verður á skráningu á kynbótasýningarnar um mánaðarmótin apríl/maí og nánar verður þá tilkynnt um skráningarfresti á einstakar sýningar.

Sýningaáætlun 2020:

 • 22.5 - 29.5 Hafnarfjörður I
 • 22.5 - 29.5 Selfoss
 • 22.5 - 28.5 Akureyri
 • 2.6 - 5.6 Stekkhólmi
 • 2.6 - 5.6 Sprettur í Kópavogi
 • 2.6 - 5.6 Hella I
 • 8.6 - 12.6 Hafnarfjörður II
 • 8.6 - 12.6 Hólar I
 • 8.6 - 12.6 Hella II
 • 15.6 - 19.6 Hafnarfjörður III
 • 15.6 - 19.6 Hólar II
 • 15.6 - 19.6 Víðidalur í Reykjavík
 • 15.6 - 19.6 Hella III
 • 6.7 - 12.7 Landsmót - Hella
 • 20.7 - 24.7 Miðs. Hólar
 • 20.7 - 24.7 Miðs. Hella
 • 17.8 - 21.8 Síðs. Hella
 • 17.8 - 21.8 Síðs. Hólar
 • 17.8 - 21.8 Síðs. Hafnarfjörður

Landsmót verður haldið á Gaddstaðaflötum við Hellu í ár. Sama fyrirkomulag verður við val kynbótahrossa inn á mótið og fyrir tvö síðustu mót og verður það ákveðinn fjöldi efstu hrossa sem vinnur sér þátttökurétt á mótið. Ákveðið var að hafa sama fjölda í hverjum flokki og var á síðasta móti og verður því miðað við að hafa 170 kynbótahross á mótinu, fjöldann í hverjum flokki má sjá í töflu hér að neðan. Þar sem verður farið að reikna tvær aðaleinkunnir fyrir hvert hross í vor, aðaleinkunn og aðaleinkunn án skeiðs, verður stuðst við þær við val kynbótahrossa inn á Landsmót. Ef dómar hrossa eru skoðaðir síðastliðin ár, þá eru klárhross með tölti jafnan í kringum 25% sýndra hrossa. Vegna þessa var ákveðið að velja u.þ.b. 75% hrossa í hverjum flokki eftir aðaleinkunn (með öllum eiginleikum) og 25% hrossa eftir aðaleinkunn án skeiðs. Þetta þýðir að í flokki þar sem 20 efstu hrossin vinna sér þátttökurétt á mótinu, að 15 efstu verða valin á grunni aðaleinkunnar og 5 efstu á grunni aðaleinkunnar án skeiðs. Að uppistöðu til verða þau hross sem valin verða á grunni aðaleinkunnar alhliða hross og þau sem veljast á grunni aðaleinkunnar án skeiðs klárhross. En þetta verður væntanlega ekki algilt. Ef hross (t.d. klárhross með tölti) er komið inn á lista yfir efstu hross á grunni aðaleinkunnar og er einnig efst á lista yfir hross á grunni aðaleinkunnar án skeiðs, verður farið neðar í þann lista þangað til fullum fjölda í flokknum er náð.

Þegar kynbótasýningar byrja í vor verður birtur stöðulisti í WorldFeng sem sýnir hvaða hross eru inni á mótinu hverju sinni. Ef fleiri en eitt hross eru jöfn í síðasta sæti inn á mótið (til dæmis fleiri en ein hryssa í 15. sæti í flokki 7 vetra og eldri hryssna) þá er þeim öllum heimil þátttaka á mótinu. Eins verða eigendur hrossa sem vinna sér þátttökurétt á mótinu en ætla sér ekki að mæta með þau af einhverjum ástæðum beðnir um að láta vita fyrir ákveðna dagsetningu, þannig að hægt sé að bjóða hrossum sem eru neðar á listanum þátttöku á mótinu.

þk/okg