Kynbótasýningar 2020 – Skráningar og sýningargjöld

Á næstu dögum verður tekið í notkun nýtt skráningakerfi fyrir kynbótasýningar. Það verður auglýst rækilega á heimasíðu RML og facebooksíðu þegar opnað verður fyrir kerfið.

Skráningakerfið verður aðgengilegt hér á heimasíðu RML og forsíðu World Fengs, www.worldfengur.com.

Ganga þarf frá greiðslu um leið og hross er skráð á kynbótasýningu. Hægt verður að greiða með debet- eða kreditkortum, ekki er hægt að greiða með millifærslu. Um leið og hrossið hefur verið skráð birtist það strax inn á viðkomandi sýningu. Ef það gerist ekki er rétt að kanna hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis við skráninguna. Aðeins þau hross sem hlotið hafa fullnaðardóm á sama sýningarári er hægt að skrá eingöngu í reiðdóm. Eftirfarandi kröfur þarf að uppfyllta við skráningu hrossa á kynbótasýningu:

  • Ekki er hægt að skrá hryssur eða geldinga til sýningar nema búið sé að taka úr þeim stroksýni til DNA-greiningar og staðfesting á því liggi fyrir í WF.
  • Allir stóðhestar verða að vera DNA greindir svo og foreldrar þeirra.
  • Úr öllum stóðhestum fimm vetra og eldri þarf að liggja fyrir í WF að búið sé að taka blóðsýni og röntgenmynda vegna spatts.
  • Ekki er hægt að skrá hross á kynbótasýningu nema þau séu örmerkt
  • Ef örmerki finnst ekki í hrossi sem mætir til dóms ber að örmerkja það á staðnum og taka stroksýni úr nös til DNA-greiningar á ætterni, með þeim kostnaði sem af því hlýst fyrir eiganda/forráðamann. Örmerki og DNA-sýni þurfa ávallt að fylgjast að.

Samkvæmt heimild frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu (ANR) dagsett 24. apríl 2020 hækka sýningargjöld fyrir fullnaðardóm um 2.500 kr. með VSK þar af er 1.000 kr. vegna hækkunar á vallargjöldum sem hafa verið óbreytt í mörg ár. Verð á byggingadóm/hæfileikadóm hækkar um 1.400 kr. með vsk. þar af vegna vallagjalda 625 kr. Verðskrá fyrir kynbótasýningar hefur verið óbreytt síðustu tvö ár. Verðskrána má sjá í gegnum tengil hér neðar. 

Frekari upplýsingar vegna skráningarkerfisins veitir Halla Eygló í síma 516 5000 eða í gegnum netfangið halla@rml.is og vegna verðskrár Sigurður Guðmundsson í síma 5165000 eða á netfangið sg@rml.is.

Sjá nánar:
Verðskrá

klk/okg