Draupnir 23040. Mynd: NBÍ.
Nú hafa orðið þau miklu tímamót að kyngreint sæði er komið til notkunar og í fyrstu stendur það til boða úr þremur nautum. Hins vegar munu fleiri naut bætast í þann hóp þegar kyngreiningu og gæðaprófun lýkur. Samhliða þessu hafa verið gerðar breytingar á þeim nautum sem eru í dreifingu. Til notkunar koma nú átta ný naut og sex fara úr dreifingu. Þau naut sem koma ný til notkunar eru Meistari 23038 frá Litla-Dunhaga í Hörgárdal undan Óðni 21002 og Maddý 855 Jörfadóttur 13011, Draupnir 23040 frá Fagurhlíð í Landbroti undan Marmara 20011 og Dimmalimm 625 Steradóttur 13057, Stjóri 23041 frá Dæli í Fnjóskadal undan Kvóta 19042 og 1009 Piparsdóttur 12007, Bolli 24002 frá Miðskógi í Miðdölum undan Keili 20031 og Rakel 872 Búkkadóttur 17031, Valens 24003 frá Lyngbrekku á Fellsströnd undan Banana 20017 og Skessu 340 Hálfmánadóttur 13022, Biggi 24004 frá Flatey í Hornafirði undan Skálda 19036 og Gyðu 3272 Gyrðisdóttur 17039, Hálsi 24006 frá Signýjarstöðum í Hálsasveit undan Kvóta 19042 og 922 Óberonsdóttur 17046 og Kládíus 24011 frá Ósabakka á Skeiðum undan Garpi 20044 og Lilju 984 Sjarmadóttur 12090.
Úr notkun fara þeir Snáði 23017, Stimpill 23020, Seimur 23021, Maddi 23022, Sokkur 23023 og Abraham 23030.
Þau naut sem kyngreint sæði stendur til boða úr til að byrja með eru Draupnir 23040, Biggi 24004 og Kládíus 24011. Þá er kyngreint sæði (Y-sæði sem gefur nautkálfa) komið til notkunar úr Angus-nautinu Möskva 24404. Fleiri naut munu væntanlega bætast í þann flokk þegar að gæðaprófun á því kyngreinda sæði sem tekið var lýkur. Dreifing á þessu sæði er hafin og mun á næstu dögum og vikum berast í kúta frjótækna um land allt eftir því sem útsendingu fram vindur. Við biðjum menn að sýna frjótæknum skilning og þolinmæði ef þeim hefur ekki borist sæði úr þessum nýju nautum en útsending fer fram eftir ákveðnu skipulagi sem örðugt er að breyta fyrirvaralaust.
Kyngreint sæði stendur nú íslenskum kúabændum til boða í fyrsta skipti með þessum hætti, að segja má. Um notkun á þessu sæði gilda sömu lögmál og með tilraunasæðið síðasta vetur, vanda þarf til verka og sæða sem næst egglosi. Þetta sæði er mun þynnra en venjulegt sæði og bestur er árangur hjá kvígum og ungum kúm. Þá eru menn beðnir að nota ekki kyngreint sæði á sínar allra bestu kýr og efnilegustu kvígur því að í þeim hópi eru nautsmæður næstu kynslóðar. Á þær er best að nota venjulegt sæði og bjóða nautkálfinn á stöð ef svo fer en fá efnilega kvígu öðrum kosti.
Við minnum jafnframt á að kyngreint sæði er dýr vara sem fara skal vel með og innheimtar verða kr. 3.000 aukalega á hvern notaðan skammt.