Landsmót og kynbótasýningar 2018

Hérna verður farið yfir atriði sem snúa að kynbótahrossum á Landsmóti 2018 og einnig nýjum áhersluatriðum í dómum í ár sem gott er að minna á.

Hvað varðar kynbótahross á Landsmóti 2018 eru nokkur atriði sem þarf að koma á framfæri. Ákveðinn fjöldi efstu hrossa vinnur sér þátttökurétt á mótinu og miðað er við að hafa 170 kynbótahross á mótinu. Fjöldann í hverjum flokki má sjá hér á heimasíðu RML, www.rml.is, undir kynbótastarf > hrossarækt > kynbótasýningar. Til að auðvelda bestu klárhrossum landsins að komast inn á mótið er 10 stigum bætt við aðaleinkunn klárhrossa í sætisröðun hrossa inn á mótið. Þegar sýningarnar eru komnar í gang má á heimasíðunni www.worldfengur.com finna lista yfir þau kynbótahross sem búin eru að vinna sér þátttökurétt á Landsmót hverju sinni. Endanlegur listi lítur ekki dagsins ljós fyrr en 16. júní þegar vordómum lýkur. Yfirlitssýningu á Hellu lýkur þann dag en vegna fjölda hrossa á þeirri sýningu líkur henni degi síðar en öðrum sýningum. Ekki þarf að skrá sig inn í WorldFeng til að sjá þennan lista heldur má opna hann á forsíðunni með því að smella á „Sýningarskrá fyrir Landsmót 2018“.

Ef fleiri en eitt hross eru jöfn í síðasta sæti inn á mótið (til dæmis fleiri en ein hryssa í 15. sæti í flokki 7 vetra og eldri hryssna) þá er þeim öllum heimil þátttaka á mótinu. Þá eru eigendur hrossa sem vinna sér þátttökurétt á mótinu en ætla sér ekki að mæta með þau af einhverjum ástæðum beðnir um að láta vita í síðasta lagi fyrir 18. júní, þannig að hægt sé að bjóða hrossum sem eru neðar á listanum þátttöku á mótinu. Hægt er að láta vita í síma 892-9690 eða á netfanginu thk@rml.is.

Úrvalssýning kynbótahrossa
Á laugardeginum á Landsmóti verður úrvalssýning kynbótahrossa þar sem hugmyndin er að virða fyrir sér bestu hross landsins fyrir ákveðna eiginleika; kynna fjölhæfni og fegurð íslenska hestsins og í raun þá miklu vídd sem býr í reiðhestskostum hans. Á þessa sýningu mega koma hross með 9.5 – 10 fyrir tölt, brokk, skeið, stökk, fet og fegurð í reið. Þessi sýning er opin þeim hrossum sem hafa hlotið þessar einkunnir á sýningum vorsins, óháð því hvort þau vinna sér þátttökurétt á Landsmóti sem einstaklingar eða ekki. Nánari upplýsingar um þetta sýningaratriði verða birtar innan tíðar.

Sýningargjald af kynbótahrossum á Landsmóti
Á Landsmóti 2018 verður nauðsynlegt að innheimta sýningargjald af einstaklingssýndum kynbótahrossum á mótinu. Samningar hafa náðst á milli Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins og Landsmóts 2018 ehf. um skiptingu kostnaðar við sýningar kynbótahrossa á mótinu og verður hægt að hafa þetta gjald nokkru lægra en á öðrum kynbótasýningum. Gjaldið mun því verða 14.315 kr. fyrir utan vsk., samtals 17.750 kr. Þetta var nauðsynlegt að gera á síðasta móti einnig en ánægjulegt er engu að síður að niðurstaðan skuli vera lægra gjald en á öðrum kynbótasýningum.

Sýningar ársins
Sýningarnar byrja í Spretti, Kópavogi 22. maí. Það eru nokkur atriði sem eru ný í dómum í ár og er gott að rifja þau upp hér:

Dómar á tölti og stökki
Í dómskala kynbótahrossa hefur staðið að 8.00 sé hámarkseinkunn fyrir tölt ef ekki er sýnt hægt tölt og einnig að 8.00 sé hámarkseinkunn fyrir tölt ef eingöngu er sýnt hægt tölt. Þá þarf einkunn fyrir hægt tölt að vera að lágmarki 7.0 eigi einkunnin 8.0 fyrir tölt að nást. Þetta hefur þótt ruglandi og gerir það að verkum að í sumum tilvikum er betra að sýna ekkert hægt tölt í stað þess að sýna afar lélegt hægt tölt. Það var ákveðið í vetur að gera einnig meiri kröfur til sýninga á hægu tölti og lækka þá einkunn sem hrossið getur hlotið að hámarki ef t.d. ekkert hægt tölt er sýnt. Þetta lítur því svona út í dómskalanum núna:

7,5 er hámarkseinkunn fyrir tölt ef:

  • Hægt tölt er ekki sýnt.
  • Eingöngu hægt tölt er sýnt.

Til að hljóta einkunnina 8.0 fyrir tölt þarf einkunn fyrir hægt tölt að vera að lágmarki 7.0. Það sama á við um stökk; að 7.5 er nú hámarkseinkunn fyrir stökk ef hægt stökk er ekki sýnt eða eingöngu hægt stökk er sýnt. Ennfremur; til að hljóta einkunnina 8.0 fyrir stökk þarf einkunn fyrir hægt stökk að vera að lágmarki 7.0. Afar fátítt er að eingöngu hægt tölt eða stökk sé sýnt. Þá þykir það mikið af upplýsingum um gangtegundirnar vanta ef þær eru ekki sýndar á hægu, að rétt sé að hafa hámarks einkunnina 7,5 í þeim tilfellum. Þá er það viðmið nú á yfirlitssýningum að ef hækka á einkunn fyrir tölt og stökk upp úr 8.0, þá þarf að sýna gangtegundirnar bæði á hægu og hraðari ferð.

Mat á hófum
Í dómskala við kynbótadóma er m.a. talað um að hófarnir skuli vera vel lagaðir, með djúpan og hvelfdan botn. Á samræmingarfundi kynbótadómara í vor var fjallað um mat á hófum. Þar var lögð sú áhersla, hvað form eða lögun hófana varðar, að taka betur á hófum sem eru með of bratta og/eða háa hæla og meta þá til lægri einkunnar á sama hátt og hófa sem hafa of lága og/eða slútandi hæla. Miðað er við að sami halli sé á tá hófsins og hæl og lengd hælsins sé um það bil helmingurinn af lengd táar. Einnig er miðað við að línan frá kjúku og niður hófinn sé ekki brotinn. Þegar hófar hafa tilhneigingu til að fletjast út og verða með of lága og/eða slútandi hæla, þá er það að sama skapi galli ef hófar hafa tilhneigingu til að vera þröngir og með of háa og/eða bratta hæla. Hvoru tveggja hefur neikvæð áhrif á endingu reiðhestsins. Þegar hælarnir eru orðnir um of háir og/ eða brattir veldur það miklu álagi á aftanverðan hófinn og fótinn, m.a. kvíslböndinn og þess vegna er mikils um vert að taka halla og lengd á hæl betur til greina við matið á hófum. Þá verður einnig minni áhersla lögð á dýpt hófanna en hingað til og meiri áhersla á hvelfingu botnsins og form hófsins að utanverðu eins og fyrr segir.

Mat á samræmi
Þegar samband byggingar og hæfileika var kannað á sínum tíma komu í ljós mikil áhrif breiddar um brjóst á hæfileika. Þetta var sú einstaka mæling sem hafði einna mest áhrif á hæfileika. Aukin breidd um brjóst skapar m.a. betra jafnvægi í hestinum sem er ein af grunnforsendum afkasta af einhverju tagi. Áhrifin eru það mikil að ástæða þykir að horfa sérstaklega til breiddar um brjóst þegar samræmi hrossa er metið en breidd um brjóst hefur ekki haft teljandi áhrif á einkunnagjöf fyrir samræmi hingað til. Aðal áhrifin eru þau að mjög grannt brjóst hefur neikvæð áhrif á hæfileika en þegar breidd um brjóst er komin upp fyrir 40 cm þynnast áhrifin út. Það er því markmiðið að koma breidd um brjóst upp fyrir ákveðið lágmark en stefna ekki að sífellt breiðara og breiðara brjósti enda eru áhrifin á hæfileika ekki línuleg upp á við. Það kom í ljós að best er að hafa breidd um brjóst ca. 3 cm yfir meðaltali. Meðaltal hjá stóðhestum er um 37 cm og meðaltal hjá hryssum 36 cm. Af þessari ástæðu var ákveðið að setja ákveðna vinnureglu nú fyrir vorið um hvaða áhrif breidd um brjóst hefur á einkunnagjöf fyrir samræmi. Þessi vinnuregla var samþykkt á fundi ræktunarleiðtoga FEIF-landanna í byrjun febrúar. Reglan er eftirfarandi:

Mat á samræmi: Til að hljóta 8.5 eða hærra fyrir samræmi þurfa stóðhestar að hafa að lágmarki 35 cm í breidd um brjóst og hryssur 34 cm.

Þetta eru ekki mjög miklar kröfur þar sem það eru ekki mörg hross sem eru fyrir neðan þessi viðmið um brjóstbreidd en mikilvægt að taka tillit til þessa atriðis við mat á samræmi. Aðrar vinnureglur við dómana, eins og með mat á skeiði og vilja og geðslagi, sem teknar voru upp í fyrra má finna hér á heimasíðu RML undir kynbótastarf > hrossarækt>kynbótasýningar (Vinnureglur FEIF við kynbótadóma).

Sýningarárið 2018 og ekki síst Landsmót hestamanna í Víðidal er sannkallað tilhlökkunarefni og væntum við hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins góðs samstarfs við hrossaræktendur og sýnendur nú í vor sem endranær.

Sjá nánar

Vinnureglur FEIF við kynbótadóma

þk/okg