Leví frá Hófgerði
Mynd: Halla Eygló Sveinsdóttir
Því miður hefur komið í ljós að Leví 25-832 er talinn vera arfblendinn fyrir bógkreppu. Í haust var kynnt til leiks nýtt erfðapróf sem getur greint stökkbreytingu sem veldur bógkreppu. Vissulega var markmiðið að allir hrútar ættu að vera greindir með þessu nýja prófi áður en sæðingavertíðin hæfist. Bógkreppupróf var framkvæmt á stöðvahrútunum bæði hjá Matís og hjá rannsóknaraðila í Nýja-Sjálandi. Örfá sýni reyndust ekki nógu góð og fékkst ekki niðurstaða á þau í Nýja-Sjálandi. Þá voru nokkru sýni sem þurfti að endurkeyra hjá Matís. Það gerði það að verkum að nokkrir hrútar voru ógreindir þegar sæðingavertíðin hófst.
Nú liggur hinsvegar fyrir niðurstöður að mestu. Enginn annar hrútur féll á bógkreppuprófinu, allir hrútar eru í lagi varðandi gula fitu. Einn hrútur greindist með þokugen, en það var Harry 25-813 frá Svínafelli en það breyti litlu þar sem hann féll frá áður en sæðingar hófust. Eina sem er óstaðfest er þokugreining hjá Tandra 25-810, en afar ólíklegt verður að teljast að Tandri beri þokugen og þá er ekki búið að endurtaka til staðfestingar riðuarfgerðargreiningu á Bryta 25-814.
Leví hefur nú verið tekin úr sæðistöku. Nýtt sýni verður tekið úr hrútnum til að staðfesta þessa niðurstöður, en útkoma úr því mun ekki liggja fyrir, fyrr en eftir sæðingavertíðina.
ee/agg