Loftslagsvænn landbúnaður hlýtur hvatningarviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar

Fulltrúar Loftslagsvæns landbúnaðar ásamt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Líf Magneudóttur, form…
Fulltrúar Loftslagsvæns landbúnaðar ásamt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Líf Magneudóttur, formanni dómnefndar. Mynd: Dúi J. Landmark

Verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður sem er samstarfsverkefni Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, Landgræðslunnar, Skógræktarinnar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fékk hvatningarviðurkenningu ársins 2021 á loftslagsfundi Reykjavíkurborgar og Festu sem haldinn var í Hörpu í dag. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Líf Magneudóttir formaður dómnefndar afhentu viðurkenninguna.

Verkefnið hvetur bændur til markvissra loftslagsaðgerða og nýsköpunar
Í umsögn dómnefndar segir: „Verkefnið miðar að því, með fræðslu, að hvetja bændur til markvissra loftslagsaðgerða og nýsköpunar. Í dag eru 40 bændur þátttakendur í verkefninu og er stutt með beinum hætti við þeirra eigin markmiðasetningu í loftslagsmálum með fræðslu og ráðgjöf. Búrekstrargögn eru sett inn í kolefnisreiknivél þar sem kolefnisígildi búsins eru reiknuð út. Lögð er áhersla á að samþætta rekstrarlegan ávinning og loftslagsávinning þátttakenda. Spennandi verður að fylgjast með hvernig verkefninu mun miða áfram, hver mælanlegu áhrifin verða og hvaða nýju lausnir og aðferðir verða til í framtíðinni út frá verkefninu".

Viðurkenningin gerir þátttökubændur að öflugum fyrirmyndum í loftslagsmálum landbúnaðarins
Í þakkarorðum við móttöku viðurkenningarinnar sagði Berglind Ósk Alfreðsdóttir, verkefnastjóri verkefnisins: „Loftslagsvænn landbúnaður þakkar kærlega fyrir þessa mikilsverðu viðurkenningu. Hún er ómetanleg hvatning fyrir bændur til að vera virkir þátttakendur í loftslagsvegferðinni og eflir okkur sem stöndum á bak við verkefnið að halda ótrauð áfram. Styrkur verkefnisins felst í öflugu samstarfi þriggja fagaðila og tveggja ráðuneyta sem er eitt af lykilatriðum þess að vel takist til við að finna lausnir á því hvernig bændur geti unnið að loftslagsmálum á jákvæðan hátt. Viðurkenningin hvetur þátttökubændur til dáða í sínum loftslagsverkefnum og gerir þá að öflugum fyrirmyndum í loftslagsmálum landbúnaðarins. Þessi viðurkenning verður táknræn fyrir stefnu verkefnisins og mun nýtast við að móta framtíð þess".

Dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda og eykur kolefnisbindingu í landbúnaði
Loftslagsvænn landbúnaður hefur það að markmiðið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu í landbúnaði. Það byggir á grasrótarnálgun þar sem hvert þátttökubú setur sér aðgerðaáætlun sem tekur mið af möguleikum og aðstæðum hvers bús. Þátttakendur vinna markvisst að settum markmiðum í daglegum bústörfum með markvissri fræðslu og ráðgjöf um hvernig hægt er að gera búskapinn loftslagsvænni með bættum búskaparháttum, skógrækt og landgræðslu.

Mynd: Frá vinstri: Guðbrandur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Vanda Úlfrún Liv Hellsing, sérfræðingur UAR, Gústav M. Ásbjörnsson, sviðstjóri hjá Landgræðslunni, Berglind Ósk Alfreðsdóttir, verkefnisstjóri RML, Valdimar Reynisson, skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni, og Borgar Páll Bragason, fagstjóri RML. Ljósmynd: Dúi J. Landmark

Sjá nánar
Frétt á vef Festu
Nánari upplýsingar um verkefnið

/okg