LOGN – Vel heppnaðir fundir á Mýrum og í Bárðardal

Kynningar- og vinnufundir fyrir verkefnið „Landbúnaður og náttúruvernd“ voru haldnir dagana 10. og 11. apríl sl. Fundirnir voru haldnir í félagsheimilinu Lyngbrekku á Mýrum og Kiðagili í Bárðardal. Voru fundirnir ágætlega sóttir og umræður líflegar. Tilgangur og markmið fundanna var að eiga samtal við bændur og að sækja efnivið í grasrótina til að nota í áframhaldandi greiningavinnu.

Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri BÍ mætti og setti fundinn á Mýrunum, en Guðrún Tryggvadóttir formaður BÍ hafði það hlutverk í Bárðardal en tók einnig þátt sem starfandi bóndi á svæðinu. Borgar Páll Bragason fagstjóri hjá RML stýrði fundunum, Sigurður Torfi Sigurðsson ráðgjafi og verkefnisstjóri LOGN sá um kynningu á verkefninu og stýrði vinnuhópum og Anna Ragnarsdóttir Pedersen kynnti frumniðurstöður spurningakönnunar sem var lögð fyrir bændur fyrir fundinn. Á fundinn á Mýrunum mætti einnig Jón Björnsson þjóðgarðsvörður Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og hélt fyrirlestur um framkvæmd friðlýsinga.

Berlega kom í ljós að mikill áhugi og vilji er hjá bændum að vinna að náttúruvernd og lýstu þeir ánægju sinni yfir að þetta samtal eigi sér stað og þeir hafðir með í ráðum. Næstu skref verkefnisins er að vinna úr og greina þau gögn sem fyrir liggja eftir fundina. Þá má reikna með að boðað verði til fleiri vinnufunda þar sem viðfangsefni verða afmörkuð eftir útkomu á greiningu þessara fyrstu funda.

Þeir sem misstu af fundunum en hafa áhuga að taka þátt í verkefninu er bent á að hafa samband við Sigurð Torfa verkefnisstjóra LOGN í netfangið sts@rml.is eða í síma 516-5078.

 

Sjá nánar
Upplýsingar um verkefnið 

sts/okg