Lokafrestur til að „sækja um“ hvatastyrki vegna sauðfjársæðinga er fimmtudagurinn 8 janúar

Forsenda þess að bændur fái greidda hvatastyrki frá Atvinnuvegaráðuneytinu vegna sæðinga með hrútum sem bera V eða MV arfgerðir, er að sæðingarnar séu skráðar í Fjárvís.

Skráningum þarf að ljúka eigi síðar en fimmtudaginn 8. janúar, (skráningum þarf að vera lokið fyrir 9. janúar 2026). Sæðingar þarf að skrá undir „skrá sæðingu“ í Fjárvís (ekki undir „skrá fang“). Til að sækja um hvatastyrkinn þarf í raun ekki að gera annað en að ganga frá þessum skráningum.

Styrkurinn er áætlaður 1.170 kr. á sædda á með hrút sem ber V arfgerð og 585 kr. ef sætt er með hrútum sem bera MV arfgerðir. Styrkupphæðin er þó birt með fyrirvara um að hún geti lækkað ef heildarupphæðin sem ætluð er í verkefnið dugar ekki. Uppgjörið fer fram í gegnum Afurð.is.

Þegar þessi orð eru skrifuð er búið að skrá um 27.100 ær sæddar. Á sama tíma fyrir ári, rétt áður en frestur skráninga rann út m.t.t. hvatastyrkja, var búið að skrá 25.700 ær.

/okg