Flestir sæðisskammtar voru sendir út frá sæðingastöð úr Völusteini 25-828 frá Villingadal
Í desember 2025 voru útsendir skammtar frá Þorleifskoti 24.815 og frá Borgarnesi 24.460. Í það heila var því sent út frá stöðvunum 49.275 skammtar sem er meira magn en áður hefur verið sent frá stöðvunum. Á síðasta ári voru sendir út um 44 þúsund skammtar og árið þar á undan tæplega 46 þúsund sem var þá gríðarlegt stökk upp á við eða úr tæplega 34 þúsund skömmtum árið 2022.
Dreifing notkunar á hrútana var fremur góð. Hinsvegar verður það ætíð svo að sumir hrútar njóta meiri vinsælda en aðrir og alvanalegt að þeir vinsælustu anni ekki eftirspurn. Á þessu var ekki undantekning nú og líklega meiri áskorun en nokkru sinni fyrir stöðvarnar að sinna pöntunum yfir háannatímann.
Vinsælustu hrútarnir
Meðfylgjandi listi sýnir þá hrúta sem mest sæði var sent úr frá stöðvunum. Þessi listi endurspeglar að ákveðnu marki eftirspurn eftir hrútunum en hér hefur einnig áhrif hve öflugir sæðisgjafar þeir eru. Mest var sent út af sæði úr hrútnum Völusteini 25-828 frá Villingadal í Eyjafirði eða 2.345 skammtar. Þetta er ansi góð frammistaða hjá Völusteini þar sem hann er einungis lambhrútur. Einnig stóð Skörðungur 25-811 frá Skarðaborg sig vel en hann kemur skammt á eftir með 2.275 skammta. Til samanburðar má nefna að á síðasta ári voru flestir skammtar sendir út úr Garpi 23-936 frá Ytri-Skógum, sem þá var veturgamall, en það voru 1.962 skammtar.
Það mun svo koma í ljós þegar búið verður að skrá sæðingarnar í Fjárvís.is hver hin raunverulega notkun hefur verið á hverjum hrút. Eins og staðan er núna er búið að skrá sæðingu á u.þ.b. 25.500 ær. Efstur stendur Skörðungur 25-811 með 1.387 ær, næstur kemur Völusteinn 25-828 með 1.302 ær, Hrókur 24-960 er þriðji með 1.163, fjórði er Flói 25-812 með 1.055 og fimmti er Áttundi 25-806 með 962 ær. En þessar tölur munu væntanlega aðeins hækka næstu daga þar sem enn liggur eitthvað óskráð.
Mest sæði var sent út frá sæðingastöðvunum úr eftirfarandi hrútum:
Völusteinn 25-828 frá Villingadal – 2.345 skammtar
Skörðungur 25-811 frá Skarðaborg – 2.275 skammtar
Hrókur 24-960 frá Brúnastöðum – 2.170 skammtar
Flói 25-812 frá Grafarkoti – 1.900 skammtar
Goði 25-816 frá Miðdal – 1.665 skammtar
Ísak 25-821 frá Grafarkoti – 1.565 skammtar
Tandri 25-810 frá Oddgeirshólum - 1.540 skammtar
Vorboði 25-827 frá Hraunhálsi – 1.505 skammtar
Áttundi 25-806 frá Ásgarði – 1.490 skammtar
Boli 25-808 frá Skammadal – 1.475 skammtar
Hvatastyrkir vegna sæðinga
Í samræmi við landsáætlun um útrýmingu riðuveiki mun atvinnuvegaráðuneytið áfram greiða styrki vegna sæðinga úr hrútum sem bera V (verndandi) eða MV (Mögulega verndandi) arfgerðir. Í ár eru það í raun allir hrútar stöðvanna nema feldhrútarnir sem bera V eða MV arfgerðir. Lagt er upp með að styrkur vegna sæðinga með hrútum sem bera V sé 1.170 kr og styrkur vegna hrúta sem bera MV sé 585 kr. en upphæðin er birt með fyrirvara um að hún getur lækkað ef potturinn dugar ekki.
Forsenda þess að bændur fái greiddan sæðingastyrk er að sæðingarnar séu skráðar í Fjárvís eigi síðar en fimmtudaginn 8. janúar 2026.
ee/agg