Mókolla 230 á Kirkjulæk var felld í sumar

Íslandsmethafinn í heildarafurðum, Mókolla 230 á Kirkjulæk í Fljótshlíð, var felld í sumar sökum elli eftir að hafa átt fádæma farsæla ævi sem mjólkurkýr. Mókolla fæddist 7. apríl 1996 og bar sínum 1. kálfi 24. október 1998 en alls bar hún 13 sinnum. Hún mjólkaði samtals 114.635 kg mjólkur á 14,7 árum eða 7.824 kg á ári að jafnaði.

Mókolla var undan Snarfara 93018 en hann var undan Þistli 84013 og Sneglu 231 frá Hjálmholti en hún er ein fárra íslenskra kúa sem hefur náð yfir 100 þús. kg æviafurðum. Mókolla erfði því endinguna frá ömmu sinni að segja má. Eins og áður sagði mjólkaði Mókolla 114.635 kg mjólkur yfir æviskeiðið og bætti eldra met Hrafnhettu í Hólmum um 3.441 kg. Mókolla skilaði alla tíð frekar efnaríkri mjólk og til jafnaðar er fituhlutfallið 4,69% og próteinhlutfallið 3,69%. Ef sú mjólk sem Mókolla skilaði í heild sinni er reiknuð til verðs eins og það er í dag nemur verðmætið 10.553.576 kr.