Nautaskrá vetrarins 2022-23 að koma út

Forsíða Nautaskráarinnar 2022-23.
Forsíða Nautaskráarinnar 2022-23.

Nautaskrá fyrir veturinn 2022-23 mun koma úr prentun nú á næstu dögum og verður dreift til kúabænda í kjölfarið. Skráin er á hefðbundnu formi, litprentuð í A4-broti og inniheldur upplýsingar um öll naut í notkun ásamt ítarefni og faglegum greinum. Þar er um að ræða greinar frá eftir Þórdísi Þórarinsdóttur hjá RML, um endurbætta heildareinkunn fyrir spena og nýtt og endurbætt kynbótamat fyrir endingu. Þá er einnig að finna í skránni greinar um upphaf erfðamengisúrvals í íslenska kúastofninum eftir Guðmund Jóhannesson og Þórdísi Þórarinsdóttur hjá RML, hvatningargrein frá Frjótæknafélaginu, lokakafla skýrslu um leiðir til hagræðingar varðandi fóðurkostnað kúabænda eftir ráðunauta RML og bréf frá bændum efir þau Laufeyju og Þröst á Stakkhamri á Snæfellsnesi.

Í skránni eru upplýsingar um 22 naut sem er fædd á áruum 2016-2021. Þetta er fyrsta skráin sem gefin er út eftir innleiðingu erfðamengisúrvals í íslenska nautgriparækt og verður ekki annað sagt en að það sé mikil nýbreytni að nú skuli svona ung naut vera komin til fullrar notkunar. Ritstjóri er Sveinbjörn Eyjólfsson, faglegur ritstjóri Guðmundur Jóhannesson, Rósa Björk á Hvanneyri sá um uppsetningu, Snorri Sigurðsson um auglýsingasöfnun og Olgeir Helgi Ragnarsson um prentun. Forsíðumynd skráarinnar er tekin af Höllu Eygló Sveinsdóttur og er hún af kúnni Orku 475 á Jörfa í Borgarbyggð en hún var dóttir Ábóta 15029 og móðurfaðir var Hlaupari 04010.

Skráin er nú þegar aðgengileg á nautaskra.is á pdf-formi eða sem rafbók.