Netfundir hjá RML

Á meðan í gildi eru tilskipanir frá yfirvöldum um takmarkanir á mannamótum þarf að hugsa annað form á samskiptum manna. Á meðan þessum takmörkunum stendur mun RML nota í meira mæli netlausnir í samskiptum og fundarhöldum til að mæta þörfum viðskiptavina sinna. Svona fundi þarf að skipuleggja á annan hátt en staðarfundi, ganga þarf í skugga um að allir sem taka þátt geti tengst og dagskrá þarf að vera einföld og tímasett.

Sl. fimmtudag 12. mars var riðið á vaðið og gerð tilraun með vinnu- og hugarflugsnetfund. Þessi fundur var hluti af verkefninu LOGN (landbúnaður og náttúruvernd). Áður hafði verið boðað til hans sem staðarfundar á Hvanneyri en þegar sá í hvað stefndi og til að riðla ekki áætunun verkefnisins var brugðið á það ráð að breyta fyrirkomulaginu og setja upp sem netfund í staðinn.

Fundurinn fjallaði um náttúru og landbúnað á því svæði sem nær yfir sunnanvert Snæfellsnesi og niður Mýrar í Borgarbyggð og tilgangurinn var að safna hugmyndum af verkefnum sem kæmu til greina á því svæði og falla að markmiðum LOGN verkefnisins. Það mættu um 30 manns fundurinn sem var framar vonum þar sem boðað var til breytinganna með mjög stuttum fyrirvara og fundarmenn sitt úr hvorri áttinni, en boðaðir voru bændur af svæðinu og sérfræðingar frá helstu fagstofnunum og félagssamtökum sem tengjast málefninu. Fundinum var skipt í þrjá hluta, þeim fyrsta kynningu á efninu, síðan var skipt upp í hópavinnu þar sem hver hópur hélt sinn fund og í lokin komu allir saman aftur og farið var yfir niðurstöður hópavinnunnar.

Fundurinn gekk framar vonum, bæði kynning og hópvinna og virtist það lítið hamla fundargestum að vera ekki á sama staðnum. Fundargestir virtust flestir ánægðir með fyrirkomulag fundarins og útkomuna í heild sinni.

sts/okg