Niðurstöður afurðaskýrslnanna í mjólkurframleiðslunni í nýliðnum apríl

Breki frá Kotlaugum í Hrunamannahreppi
Breki frá Kotlaugum í Hrunamannahreppi

Niðurstöður afurðaskýrslnanna í mjólkurframleiðslunni í apríl hafa verið birtar á vef okkar. Þegar þær niðurstöður urðu til laust eftir hádegi þann 11. maí, höfðu skýrslur borist frá 553 búum. Reiknuð meðalnyt 25.703,7 árskúa á þessum búum, var 6.299 kg á síðustu 12 mánuðum. Meðalfjöldi árskúa á búunum sem tölum hafði verið skilað frá á fyrrnefndum tíma, var 46,5. Rétt er að hafa í huga að ekki er um að ræða skil frá öllum búum sem eru skráð til þátttöku í skýrsluhaldinu og taka mið af því þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar.

Búið þar sem meðalnyt árskúa var mest á síðustu 12 mánuðum var hið sama og marga síðustu mánuði, bú Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal, en hver árskýr þar mjólkaði að jafnaði 8.779 kg. undanfarna 12 mánuði. Annað búið í röðinni var einnig hið sama og fyrir mánuði síðan, bú Karls Inga og Erlu Hrannar á Hóli í Svarfaðardal þar sem meðalkýrin skilaði 8.556 kg. á tímabilinu. Þriðja búið á listanum var í fimmta sæti fyrir mánuði síðan, en það er bú Jakobs Smára Pálmasonar í Garðakoti í Hjaltadal þar sem meðalárskýrin mjólkaði 8.330 kg. Fjórða búið núna sem var í þriðja sæti seinast var bú Gunnbjarnar ehf. í Skáldabúðum í hinum gamla Gnúpverjahreppi en þar reiknaðist meðalnyt árskúa 8.327 kg. Fimmta búið að þessu sinni, en í fjórða sæti við lok marsmánaðar var Hvanneyrarbúið ehf. á Hvanneyri í Andakíl í Borgarfirði, þar sem hver árskýr skilaði að meðaltali 8.318 kg. á síðustu 12 mánuðum.

Nythæsta kýrin við uppgjörið nú var hin sama og síðast, Sjöa 777 (f. Roði 11051) á Kúskerpi í Blönduhlíð í Skagafirði sem mjólkaði 13.837 kg undanfarna 12 mánuði. Önnur í röðinni var Dúna 464 (f. Muni 10018) í Ásgarði í Reykholtsdal í Borgarfirði sem mjólkaði 13.286 kg. síðustu 12 mánuðina. Þriðja nythæsta kýrin á landinu að þessu sinni var Surtla 695 (f. Gæi 09047) á Moldhaugum í Kræklingahlíð við Eyjafjörð en sú kýr mjólkaði 13.056 kg. á tímabilinu sem um ræðir.

Alls náðu 76 kýr á búunum, sem afurðaskýrslum fyrir apríl hafði verið skilað frá nokkru eftir hádegið þ. 11. maí, að mjólka yfir 11.000 kg á síðustu 12 mánuðum. Af þeim skiluðu 13 yfir 12.000 kg. nyt á tímabilinu og af þeim náðu þrjár að mjólka meira en 13.000 kg. síðustu 12 mánuðina.

 

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/sk