Niðurstöður afurðaskýrslnanna í mjólkurframleiðslunni í nýliðnum júlí

Stæll 17022 frá Hnjúki
Stæll 17022 frá Hnjúki

Niðurstöður afurðaskýrslnanna í mjólkurframleiðslunni nú í júlí hafa verið birtar á vef okkar. Þegar þær niðurstöður urðu til nokkru fyrir hádegi þann 17. ágúst, höfðu skýrslur borist frá 544 búum. Reiknuð meðalnyt 25.589,9 árskúa á þessum búum, var 6.343 kg á síðustu 12 mánuðum og reiknaðist hin sama og fyrir mánuði síðan. Meðalfjöldi árskúa á búunum sem tölum hafði verið skilað frá á fyrrnefndum tíma, var 47,0. Rétt er að hafa í huga að ekki er um að ræða skil frá öllum búum sem eru skráð til þátttöku í skýrsluhaldinu og taka mið af því þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar.

Búið þar sem meðalnyt árskúa var mest á síðustu 12 mánuðum var hið sama og að undanförnu, bú Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal, en hver árskýr þar mjólkaði nú að jafnaði 8.859 kg. Annað búið í röðinni var einnig hið sama og við höfum séð undanfarið, bú Karls Inga og Erlu Hrannar á Hóli í Svarfaðardal þar sem meðalkýrin skilaði 8.731 kg. á síðustu 12 mánuðum. Þriðja í röðinni nú, líkt og seinast var bú Gunnbjarnar ehf. í Skáldabúðum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Á því búi reiknaðist meðalnyt árskúa 8.567 kg. á umræddu tímabili. Í fjórða sæti á listanum að þessu sinni eins og fyrir mánuði var bú Friðriks Þórarinssonar á Grund í Svarfaðardal þar sem meðalnytin reyndist 8.357 kg. nú við lok júlí. Fimmta búið við uppgjörið nú var Hvanneyrarbúið í Andakíl, sem einnig var þar í röðinni við lok júní en þar mjólkaði meðalárskýrin 8.330 kg.

Nythæsta kýrin við uppgjörið nú var Korna 150 (f. Hræsingur 98046) á Brúsastöðum í Vatnsdal en sú kýr skilaði 14.100 kg. á síðustu 12 mánuðum. Næst á eftir henni fylgdi Svana 753 (F. Gráni 606 sonarsonur Lóa 01008 og dóttursonur Ófeigus 02016) á Flatey á Mýrum við Hornafjörð en nyt Svönu á síðustu 12 mánuðum reyndist 13.186 kg. Þriðja kýrin á listanum að þessu sinni var Aþena 624 (f. Aðall 02039) í Laxárholti 2 á Mýrum vestra en nyt hennar var 12.718 kg. á tímabilinu.

Alls náðu 98 kýr á búunum, sem afurðaskýrslum fyrir júlí hafði verið skilað frá vel fyrir hádegi þ. 17. ágúst, að mjólka 11.000 kg. og þar yfir á síðustu 12 mánuðum. Af þeim skiluðu 25 yfir 12.000 kg. nyt á tímabilinu og af þeim náðu tvær hærri nyt en 13.000 kg. síðustu 12 mánuðina. Önnur þeirra hæstu mjólkaði yfir 14.000 kg. eins og fram kom hér á undan. 

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/sk