Niðurstöður afurðaskýrslnanna í mjólkurframleiðslunni í nýliðnum september

Speni frá Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit - undan Gými 11007 og Bunu 2173
Speni frá Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit - undan Gými 11007 og Bunu 2173

Niðurstöður afurðaskýrslnanna í mjólkurframleiðslunni nú í september hafa verið birtar á vef okkar. Þegar þær niðurstöður urðu til um klukkan níu að morgni þess 11. október, höfðu skýrslur borist frá 538 búum. Reiknuð meðalnyt 25.400,2 árskúa á þessum búum, var 6.349 kg á síðustu 12 mánuðum og reiknaðist 2 kg. lægri en við lok ágúst. Meðalfjöldi árskúa á búunum sem tölum hafði verið skilað frá á fyrrnefndum tíma, var 47,2. Rétt er að hafa í huga að ekki er um að ræða skil frá öllum búum sem eru skráð til þátttöku í skýrsluhaldinu og taka mið af því þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar.

Búið þar sem meðalnyt árskúa var mest á síðustu 12 mánuðum var hið sama og talsvert lengi undanfarið, bú Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal, en hver árskýr þar mjólkaði nú að jafnaði 8.785 kg. Annað búið í röðinni var einnig hið sama og verið hefur að undanförnu, bú Karls Inga og Erlu Hrannar á Hóli í Svarfaðardal þar sem meðalkýrin skilaði 8.700 kg. á síðustu 12 mánuðum. Þriðja í röðinni nú, enn hið sama og seinast var bú Gunnbjarnar ehf. í Skáldabúðum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi en þar reiknaðist meðalnyt árskúa 8.568 kg. á umræddu tímabili. Í fjórða sæti á listanum að þessu sinni var bú Ólafar Maríu Samúelsdóttur í Hvammi á Barðaströnd í Vesturbyggð, þar sem meðalárskýrin skilaði 8.380 kg. Fimmta búið við uppgjörið nú en hið fjórða fyrir mánuði var bú Guðlaugar og Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit en meðalnyt árskúnna þar reiknaðist 8.375 kg.

Nythæsta kýrin við uppgjörið nú en þriðja í röðinni fyrir mánuði var Vakt 835 (f. Hegri 03014) í Reykjahlíð á Skeiðum sem mjólkaði 14.303 kg. síðustu 12 mánuði. Önnur nythæst að þessu sinni var Randafluga 1035 (f. Boli 0620, sonur Kastala 07003 og dóttursonur Sóla 98017) í Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi, en nyt hennar reyndist vera 13.267 kg. Þriðja í röðinni nú var kýr nr. 643 (f. Svipur 10038) í Lyngbrekku á Fellsströnd í Dalasýslu, en hún mjólkaði 13.250 kg. síðastliðna 12 mánuði.

Alls náðu 121 kýr á búunum, sem afurðaskýrslum fyrir september hafði verið skilað frá á fyrrgreindum tíma, að mjólka 11.000 kg. og þar yfir á síðustu 12 mánuðum. Af þeim skiluðu 34 yfir 12.000 kg. nyt á tímabilinu og af þar af náðu 7 hærri nyt en 13.000 kg. síðustu 12 mánuðina. Ein þeirra mjólkaði yfir 14.000 kg. eins og fram hefur komið. 

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/sk