Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir aprílmánuð

Sóli frá Hjarðarfelli í Eyja- og Miklaholtshreppi, sonur Maísólar 721 og Mjölnis 21025. Mynd frá Nau…
Sóli frá Hjarðarfelli í Eyja- og Miklaholtshreppi, sonur Maísólar 721 og Mjölnis 21025. Mynd frá Nautastöðinni á Hesti.

Niðurstöður skýrslna nautgriparæktarinnar síðustu 12 mánuði, við lok apríl, hafa verið birtar á vef okkar. Niðurstöðurnar byggja á þeim skýrslum sem hafði verið skilað þegar nokkuð var liðið á dag þann 12. maí. Hér á eftir er farið yfir nokkur atriði úr niðurstöðunum en rétt er að benda á að mun meiri upplýsingar er að finna í töflum þeim sem tengill er í neðst í fréttinni.

Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar hafði verið skilað mjólkurskýrslum frá 441 búi en uppgjör kjötframleiðslunnar nær nú til 115 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu.

Reiknuð meðalnyt 24.487,5 árskúa á búunum 441 var 6.546 kg. eða 6.804 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk) á uppgjörstímabilinu. Meðalfjöldi árskúa á fyrrnefndum 441 búi var 55,5.

Mest meðalnyt árskúa nú var, líkt og við lok marsmánaðar, á búi Helgu Bjargar Helgadóttur á Syðri-Hömrum 3 í Ásahreppi, Rang. þar sem meðalárskýrin mjólkaði 8.677 kg. að meðaltali á uppgjörstímabilinu. Annað í röðinni að þessu sinni, einnig líkt og við síðasta uppgjör, var bú Eyvindar og Aðalbjargar í Stóru-Mörk 1 undir Eyjafjöllum, þar sem meðalnyt árskúa reyndist að þessu sinni 8.567 kg. Þriðja í röðinni nú var bú Göngustaða ehf. á Göngustöðum í Svarfaðardal þar sem meðalárskýrin skilaði 8.506 kg. síðustu 12 mánuðina.

Nythæsta kýrin á síðustu 12 mánuðum var Lukka 2700 (f. Máttur 18019) í Gunnbjarnarholti 2 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem mjólkaði 14.330 kg. á uppgjörstímabilinu. Önnur í röðinni varð Skerja 638 (f. Spennir 12027) í Kolsholtshelli í Flóa sem mjólkaði 14.289 kg. síðustu 12 mánuði. Þriðja kýrin á listanum að þessu sinni var Droplaug 875 (f. Dropi 10077) í Dalbæ í Flóa sem mjólkaði 13.832 kg. á umræddu tímabili.

Alls náðu 158 kýr á mjólkurframleiðslubúunum sem afurðaskýrslum fyrir síðasta mánuð hafði verið skilað frá þegar nokkuð var liðið á dag þann 12. maí, að mjólka 11.000 kg. eða meira á síðustu 12 mánuðum. Af þeim hópi mjólkuðu 42 kýr 12.000 kg. og þar yfir. Þar af mjólkuðu níu yfir 13.000 kg. á tímabilinu og af þeim skiluðu tvær afurðum yfir 14.000 kg. eins og fram hefur komið.

Meðalfjöldi kúa á þeim 115 hreinu kjötframleiðslubúum sem uppgjörið nær yfir reiknaðist 28,6 við lok apríl en árskýrnar á þeim búum voru á þeim tíma 27,4 að meðaltali. Meðalkjötframleiðsla á þessum búum var 7.515,3 kg. á undanförnum 12 mánuðum.

Meðalfallþungi 9.483 ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, sem slátrað var frá öllum þeim búum sem uppgjörið nær yfir, hvort sem um ræðir bú þar sem stunduð var kjötframleiðsla eða mjólkurframleiðsla, eða blanda af hvoru tveggja, undanfarna 12 mánuði, var 257,0 kg. og meðalaldur þeirra gripa við slátrun var 730,9 dagar.

Kjötframleiðslubúið þar sem meðalvöxtur sláturgripa á síðustu 12 mánuðum var mestur, var Reykir í hinum gamla Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði þar sem meðalgripurinn varð 494 daga gamall og óx að meðaltali 654 g. á dag. Næst í röðinni var búið á Efstalandi í Öxnadal þar sem meðalgripurinn óx að meðaltali um 617 g. að meðaltali á 467 dögum. Þriðja búið á þessum lista að þessu sinni er Nýibær undir Eyjafjöllum þar sem 607 daga gamlir gripir náðu að vaxa að meðaltali 590 g. á dag.

Þegar litið er á mestan meðalfallþunga sláturgripa var hann mestur á Breiðabóli á Svalbarðsströnd þar sem skrokkþungi 807 daga gamalla gripa var að meðaltali 379,3 kg. Næst í röðinni var Minni-Mástunga í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem skrokkþungi 641 dags gamalla gripa reyndist vera að jafnaði 364,8 kg. Þriðja búið hér var síðan Nýibær undir Eyjafjöllum þar sem meðalfallþungi 602 daga gamalla gripa reiknaðist 364,4 kg.

Aftur má minna á að það sem hér hefur verið rakið er aðeins lítið brot af því sem er að finna á þeim listum sem birtir eru.

Þess er vert að geta hér að endingu að skjalið sem geymir upplýsingar um fjölda dætra undan þeim nautum sem eiga fimm eða fleiri dætur á lista kúa sem skiluðu meiri en 9000 kg. nyt, er ekki uppfært í hverjum mánuði.

Sjá nánar:

rml.is/is/forrit-og-skyrsluhald/nautgriparaekt/huppais-nidurstodur-2025