Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir júlí

Sjóður frá Stóra-Dunhaga í Hörgársveit, undan Jarfa 16016 og Auði 771. Mynd frá Nautastöðinni á Hest…
Sjóður frá Stóra-Dunhaga í Hörgársveit, undan Jarfa 16016 og Auði 771. Mynd frá Nautastöðinni á Hesti.

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir síðustu 12 mánuði, við lok júlímánaðar, hafa verið birtar á vef okkar. Niðurstöðurnar byggja á þeim skýrslum sem hafði verið skilað skömmu fyrir hádegi þann 11. ágúst.
Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 452 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 126 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.070,4 árskúa á fyrrnefndum 452 búum var 6.403 kg. eða 6.344 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk) síðustu 12 mánuðina. Meðalfjöldi árskúa á fyrrgreindum búum var 53,3, óbreyttur fjöldi frá því fyrir mánuði.

Mest meðalnyt árskúa á uppgjörstímabilinu, síðustu 12 mánuðum var á Merkurbúinu, í Stóru-Mörk 1 undir Eyjafjöllum en þar mjólkaði árskýrin að meðaltali 8.978 kg. Næst í röðinni var bú Laufeyjar og Þrastar á Stakkhamri 2 á Snæfellsnesi, þar sem meðalnytin reyndist 8.816 kg. eftir árskú. Þriðja að þessu sinni var bú Garðars Guðmundssonar í Hólmi í Landeyjum þar sem hver árskýr mjólkaði 8.529 kg. Hið fjórða í röðinni að þessu sinni var bú Helgu Bjargar Helgadóttur á Syðri-Hömrum 3 í Ásahreppi en þar mjólkaði árskýrin að jafnaði 8.473 kg. Í fimmta sæti var bú Guðrúnar og Óskars á Tannstaðabakka við Hrútafjörð þar sem meðalnyt árskúnna var 8.469 kg. á umræddu tímabili.

Nythæsta kýrin á undanförnu 12 mánaða tímabili var Klauf 2487 (f. Strákur 10011) í Lambhaga á Rangárvöllum sem mjólkaði 14.829 kg. á síðustu 12 mánuðum. Önnur í röðinni varð Bára 523 (f. Sandur 07014) í Flatey á Mýrum við Hornafjörð sem mjólkaði 14.759 kg. á tímabilinu. Hin þriðja að þessu sinni var Rófa (f. Ormur 17003) í Skáldabúðum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem mjólkaði á tímabilinu 13.603 kg. Fjórða afurðahæsta kýrin á síðustu 12 mánuðum var Mía 536 (f. Ýmir 13051) á Búrfelli í Svarfaðardal sem skilaði á tímabilinu 13.493 kg. Fimmta reyndist vera Flækja 2044 (f. Fláki 16051) á Hvanneyri í Andakíl sem mjólkaði 13.305 kg. umrædda 12 mánuði.

Alls náðu 152 kýr á mjólkurframleiðslubúunum sem afurðaskýrslum fyrir júlí hafði verið skilað frá skömmu fyrir hádegi hinn 11. ágúst, að mjólka 11.000 kg. eða meira síðustu 12 mánuði. Af þeim skiluðu 39 nyt yfir 12.000 kg. og af þeim mjólkuðu 10 meira en 13.000 kg. Tvær þeirra mjólkuðu síðan meira en 14.000 kg. á tímabilinu sem um ræðir, eins og fram hefur komið.

Meðalfjöldi kúa á þeim 126 hreinu kjötframleiðslubúum sem uppgjörið nær yfir reiknaðist 27,6 nú við lok júní en árskýrnar á þeim búum voru að jafnaði 25,2. Meðalkjötframleiðsla á þessum búum reyndist 6.895,4 kg. á undanförnum 12 mánuðum.

Meðalfallþungi 9.756 ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, sem slátrað var frá öllum búunum sem uppgjörið nær yfir, undanfarna 12 mánuði, var 253,7 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra gripa við slátrun var 746,7 dagar.

Athugið að enn er eftir að uppfæra skjalið sem geymir upplýsingar um fjölda dætra undan þeim nautum sem eiga fimm eða fleiri dætur á lista kúa sem skiluðu meiri en 9000 kg. nyt í júlí sl.

Sjá nánar:

rml.is/is/forrit-og-skyrsluhald/nautgriparaekt/huppais-nidurstodur-2023