Erpur frá Litlu-Ásgeirsá í Víðidal, sonur Nafna 19009 Erpu 231. Mynd frá Nautastöðinni á Hesti.
Niðurstöður skýrslna nautgriparæktarinnar fyrir síðastliðna 12 mánuði, nú að loknum júlí, má nú sjá á vef okkar. Niðurstöðurnar byggja á þeim skýrslum sem hafði verið skilað þegar komið var fram yfir nón þann 13. ágúst. Hér á eftir er farið stuttlega yfir nokkur atriði úr niðurstöðunum en mun meiri upplýsingar liggja fyrir í töflum þeim sem tengill er í neðst í þessari frétt.
Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar hafði verið skilað mjólkurskýrslum frá 438 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar nær nú til 114 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu.
Reiknuð meðalnyt 24.322,3 árskúa á búunum 439 var 6.572 kg. eða 6.830 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk) á umtöluðu uppgjörstímabili. Meðalfjöldi árskúa á fyrrnefndum 439 búum var 55,4.
Mest meðalnyt árskúa nú var á búi Göngustaða ehf. á Göngustöðum í Svarfaðardal þar sem meðalárskýrin skilaði 8.627 kg. nyt á síðustu 12 mánuðum. Næst á eftir var bú Helgu Bjargar Helgadóttur á Syðri-Hömrum 3 í Ásahreppi, Rang. þar sem meðalnyt hverrar árskýr reiknaðist 8.620 kg. á síðustu 12 mánuðum. Þriðja að þessu sinni, líkt og í fyrra mánuði var bú Brynjólfs og Piu – Hellisbúsins í Kolsholti 1 í Flóa þar sem meðalnyt árskúa var 8.571 kg. á uppgjörstímabilinu.
Listi yfir hæstu 12 mánaða afurðir mjólkurkúa það sem af er ári er nú birtur í í þriðja sinn hér á vef okkar.
Hæstu skráðu 12 mánaða nyt það sem af er ári á Plóma 2686 (f. Jiri 1438, sonur Kaktusar 16003 og dóttursonur Sands 07014. Móðurfaðir Plómu er Dalur 16025), í Gunnbjarnarholti en hæstu 12 mánaða nyt náði hún nú við lok júlí, 15.687 kg. Önnur á þessum lista er Droplaug 875 (f. Dropi 10077) í Dalbæ í Flóa sem náði 15.164 kg. nyt við lok febrúar sl. Þriðja er síðan Klauf 2487 (f. Strákur 10011) í Lambhaga á Rangárvöllum en hæsta 12 mánaða nyt hennar er 15.136 kg. og náðist hún við lok janúar sl.
Það sem af er þessu ári hafa 40 kýr náð skráðri 13.000 kg. nyt og þar yfir á 12 mánaða tímabili. Af þeim hópi hafa ellefu skilað yfir 14.000 kg. mjólkur á 12 mánuðum og af þeim náðu fimm hærri nyt en 15.000 kg. á sambærilegum tíma.
Meðalfjöldi kúa á þeim 114 hreinu kjötframleiðslubúum sem uppgjörið nær yfir reiknaðist 30,9 við lok júlí en árskýrnar á þeim búum reyndust að meðaltali vera 27,2 á þeim tíma. Meðalkjötframleiðsla á þessum búum var 7.574,5 kg. á uppgjörstímabilinu.
Meðalfallþungi 9.404 ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, sem slátrað var frá öllum þeim búum sem uppgjörið nær yfir, hvort sem um ræðir bú þar sem stunduð var kjötframleiðsla eða mjólkurframleiðsla, eða blanda af hvoru tveggja, undanfarna 12 mánuði, var 257,2 kg. og meðalaldur þeirra gripa við slátrun var 732,8 dagar.
Kjötframleiðslubúið þar sem meðalvöxtur sláturgripa á síðustu 12 mánuðum var mestur, var Reykir í hinum gamla Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði þar sem meðalgripurinn varð 489 daga gamall og óx að meðaltali 679 g. á dag. Næst var búið á Efstalandi í Öxnadal þar sem hver meðalgripur óx að jafnaði um 649 g. á 448 dögum. Þriðja búið á þessum lista nú að liðnum júlí er Nýibær undir Eyjafjöllum þar sem 561 dags gamlir gripir náðu að jafnaði að vaxa um 617 g. á dag.
Meðalfallþungi sláturgripa reiknaðist mestur á Breiðabóli á Svalbarðsströnd þar sem 41 gripur vigtaði að meðaltali 393,1 kg. eftir 814 vaxtardaga. Næstmestur reyndist fallþunginn að meðaltali á Ytra-Hólmi I þar sem 12 gripir vógu að jafnaði 366,8 kg. eftir 721 vaxtardag. Þriðja búið í röðinni hér var Nýibær undir Eyjafjöllum þar sem 55 sláturgripir skiluðu meðalfallþunga upp á 357,6 kg. eftir 561 vaxtardag.
Þess er vert að geta hér að endingu að skjalið sem geymir upplýsingar um fjölda dætra undan þeim nautum sem eiga fimm eða fleiri dætur á lista yfir mjólkurkýr sem skiluðu meiri en 9000 kg. nyt, er ekki uppfært í hverjum mánuði.
Sjá nánar:
rml.is/is/forrit-og-skyrsluhald/nautgriparaekt/huppais-nidurstodur-2025