Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir nýliðinn maí

Ási frá Ásum í Gnúpverjahreppi, undan Jarfa 16016 og Áttu 888.
Ási frá Ásum í Gnúpverjahreppi, undan Jarfa 16016 og Áttu 888.

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir síðustu 12 mánuði nú eftir að maímánuður hefur runnið sitt skeið, hafa verið birtar á vef okkar. Niðurstöðurnar fyrir mjólkurframleiðsluna voru uppfærðar skömmu eftir hádegi þann 12. júní.

Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 460 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 128 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.352,2 árskúa á fyrrnefndum 460 búum var 6.385 kg. eða 6.408 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk) síðustu 12 mánuðina. Meðalfjöldi árskúa á fyrrgreindum búum var 52,9.

Mest meðalnyt árskúa á síðastliðnum 12 mánuðum reyndist vera á Merkurbúinu í Stóru-Mörk 1 undir Eyjafjöllum en þar mjólkaði árskýrin að jafnaði 8.972 kg. á tímabilinu. Næstmest var nytin á búi Laufeyjar og Þrastar á Stakkhamri 2 á Snæfellsnesi, 8.899 kg. eftir árskú að meðaltali. Þriðja í röðinni nú við lok maí var bú Helgu Bjargar Helgadóttur á Syðri-Hömrum 3 í Ásahreppi en þar skilaði árskýrin að meðaltali 8.475 kg. Fjórða var bú Garðars Guðmundssonar í Hólmi í Landeyjum þar sem hver árskýr mjólkaði að jafnaði 8.447 kg. Fimmta var bú Guðrúnar og Óskars á Tannstaðabakka við Hrútafjörð þar sem meðalnyt árskúnna var 8.337 kg. á umræddu tímabili.

Nythæsta kýrin á síðustu 12 mánuðum var Klauf 2487 (f. Strákur 10011) í Lambhaga á Rangárvöllum sem mjólkaði 13.558 kg. á tímabilinu. Önnur í röðinni reyndist vera Helga 291 (f. Seiður 14040) á Skúfsstöðum í Hjaltadal í Skagafirði sem mjólkaði 13.408 kg. á umræddum 12 mánuðum. Þriðja kýrin að þessu sinni var Bára 523 (f. Sandur 07014) í Flatey á Mýrum við Hornafjörð sem skilaði á tímabilinu 13.093 kg. Fjórða var kýr nr. 790 (f. Voði 14086) í Eystri-Leirárgörðum sem mjólkaði 13.090 kg. á fyrrnefndum 12 mánaða tíma. Fimmta var Rauðka 569 (f. Keipur 07054) á Kvíabóli í Kaldakinn sem mjólkaði 13.056 kg. síðustu 12 mánuði.

Alls náðu 127 kýr á mjólkurframleiðslubúunum sem afurðaskýrslum fyrir maí hafði verið skilað frá upp úr hádegi hinn 12. júní, að mjólka 11.000 kg. eða meira síðustu 12 mánuði. Af þeim skiluðu 29 kýr nyt yfir 12.000 kg. og þær fimm sem allra mest mjólkuðu náðu að skila nyt yfir 13.000 kg. og eru þær taldar hér á undan.

Meðalfjöldi kúa á þeim 128 hreinu kjötframleiðslubúum sem uppgjörið nær yfir reiknaðist 26,6 nú við lok maí en árskýrnar á þeim búum voru að jafnaði 26,3. Meðalkjötframleiðsla á þessum búum reyndist 6.811,9 kg. á undanförnum 12 mánuðum.

Meðalfallþungi 9.769 ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, sem slátrað var frá öllum búunum sem uppgjörið nær yfir, undanfarna 12 mánuði, var 253,4 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra gripa við slátrun var 746,4 dagar.

Sjá nánar:
rml.is/is/forrit-og-skyrsluhald/nautgriparaekt/huppais-nidurstodur-2023