Hjalti frá Skúfsstöðum í Hjaltadal, sonur Krumma 22025 og Skjöldu 312. Mynd frá Nautastöðinni á Hesti.
Niðurstöður skýrslna nautgriparæktarinnar fyrir síðastliðna 12 mánuði, að septembermánuði loknum, má nú finna á vef okkar. Niðurstöðurnar byggja á þeim skýrslum sem hafði verið skilað þegar komið var fram um hádegi þann 13. október. Hér á eftir er farið yfir nokkur atriði úr niðurstöðunum en mun meiri upplýsingar liggja fyrir í töflum þeim sem tengill er í neðst í fréttinni.
Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar hafði verið skilað mjólkurskýrslum frá 433 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar nær nú til 116 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu.
Reiknuð meðalnyt 23.989,4 árskúa á búunum 433 var 6.575 kg. eða 6.823 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk) á uppgjörstímabilinu, október 2024 til september 2025. Meðalfjöldi árskúa á fyrrnefndum 436 búum var 55,9.
Mest meðalnyt árskúa var á búi Göngustaða ehf. á Göngustöðum í Svarfaðardal þar sem 69,3 árskýr mjólkuðu að jafnaði 8.671 kg. á síðustu 12 mánuðum. Næst á eftir var bú Garðars Guðmundssonar í Hólmi í Landeyjum þar sem 81,0 árskýr skiluðu á meðalafurðum upp á 8.654 kg. Þriðja í röðinni var bú Arnars Bjarna og Berglindar í Gunnbjarnarholti 2 þar sem meðalnyt 130,2 árskúa var 8.526 kg.
Geta má þess að leitast hefur verið við að halda þeirri viðmiðun að búin sem birtast á listanum hafi verið þátttakendur í afurðaskýrsluhaldi mjólkurframleiðenda í það minnsta nærri því ár, en vegna þess hve fátítt er að ný bú bætist í þennan hóp reynir sjaldan á umrætt viðmið.
Listi yfir hæstu 12 mánaða afurðir mjólkurkúa það sem af er ári er nú birtur í fimmta sinn hér á vef okkar og má kannski segja að það sé ekki ný frétt lengur.
Hæstu skráðu 12 mánaða nyt það sem af er ári á Plóma 2686 (f. Jiri 1438, sonur Kaktusar 16003 og dóttursonur Sands 07014. Móðurfaðir Plómu er Dalur 16025), í Gunnbjarnarholti en hæstu 12 mánaða nyt náði hún við lok ágúst síðastliðins, 16.779 kg. Önnur á þessum lista er Droplaug 875 (f. Dropi 10077) í Dalbæ í Flóa sem náði 15.164 kg. nyt við lok febrúar sl. Þriðja er síðan Klauf 2487 (f. Strákur 10011) í Lambhaga á Rangárvöllum en hæsta 12 mánaða nyt hennar er 15.136 kg. og náði hún því marki í lok janúar síðastliðins. Þessar þrjár kýr sitja hér efstar eins og fyrir mánuði síðan.
Það sem af er þessu ári hafa 54 kýr náð skráðri 13.000 kg. nyt og þar yfir á 12 mánaða tímabili. Af þeim hópi hafa 14 skilað yfir 14.000 kg. mjólkur á 12 mánuðum og fimm þeirra hærri nyt en 15.000 kg. á sambærilegum tíma. Til viðbótar má ítreka að hæsta skráða nyt fyrrnefndrar Plómu 2686 í Gunnbjarnarholti 2 á 12 mánaða tímabili, er talsvert á sautjánda þúsundið sem eru allmikil tíðindi.
Meðalfjöldi kúa á þeim 116 hreinu kjötframleiðslubúum sem uppgjörið nær yfir var 30,6 nú við lok ágúst en árskýrnar á þeim búum reyndust að meðaltali vera 26,9 á tímabilinu. Meðalkjötframleiðsla á þessum búum var 7.854,8 kg. á umræddum 12 mánuðum.
Meðalfallþungi 9.455 ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, sem slátrað var frá öllum þeim búum sem uppgjörið nær yfir, hvort sem um ræðir bú þar sem stunduð var kjötframleiðsla eða mjólkurframleiðsla, eða blanda af hvoru tveggja, undanfarna 12 mánuði, var 257,2 kg. og meðalaldur þeirra gripa við slátrun var 734,2 dagar.
Kjötframleiðslubúið þar sem meðalvöxtur sláturgripa á síðustu 12 mánuðum reiknaðist mestur, var Reykir í hinum gamla Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði þar sem meðalgripurinn varð 508 daga gamall og óx að meðaltali 676 g. á dag. Næst í röðinni kom búið á Efstalandi í Öxnadal þar sem hver meðalgripur óx að jafnaði um 672 g. á 474 dögum. Þriðja búið á þessum lista nú að liðnum september er Nýibær undir Eyjafjöllum þar sem 537 daga gamlir gripir uxu að meðaltali um 629 g. á dag.
Meðalfallþungi sláturgripa reiknaðist mestur á Breiðabóli á Svalbarðsströnd þar sem 31 gripur vigtaði að meðaltali 385,7 kg. eftir 821 vaxtardag. Næstmestur var fallþunginn að meðaltali á Ytra-Hólmi I þar sem 11 gripir vógu að jafnaði 372,5 kg. eftir 721 vaxtardag. Þriðja búið í röðinni var Reykir í hinum gamla Lýtingsstaðahreppi þar sem meðalfallþungi 10 sláturgripa var 356,2 kg. eftir 718 vaxtardaga.
Sjá nánar:
rml.is/is/forrit-og-skyrsluhald/nautgriparaekt/huppais-nidurstodur-2025