Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar í nýliðnum október

Pistill frá Glitstöðum í Norðurárdal, undan Pipar 12007 og Kolu 602.
Pistill frá Glitstöðum í Norðurárdal, undan Pipar 12007 og Kolu 602.

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar núna í október, hafa verið birtar á vef okkar. Niðurstöður skýrslnanna frá mjólkurframleiðendum byggjast á skilum mjólkurskýrslna og annarra skráninga eins og staðan á þeim var að morgni þ. 11. nóvember 2020.

Þegar niðurstöðurnar sem nú hafa verið birtar voru reiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 509 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 111 búa þar sem var framleitt nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.622,6 árskúa á nefndum 509 búum var 6.479 kg eða 6.777 kg OLM (af orkuleiðréttri mjólk) síðustu 12 mánuðina. Meðalfjöldi árskúa á búunum 509 var 48,4.

Meðalnyt árskúa síðustu 12 mánuði var mest á Hurðarbaksbúinu ehf. á Hurðarbaki í Flóa, þar sem meðalárskýrin mjólkaði 8.700 kg. undanfarna 12 mánuði. Annað í röðinni að þessu sinni var bú Guðlaugar og Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit þar sem meðalnyt árskúnna var 8.576 kg. Þriðja í röðinni nú var bú Guðrúnar og Gunnars á Búrfelli í Svarfaðardal þar sem reiknuð meðalnyt árskúa reyndist 8.495 kg. á tímabilinu sem um ræðir. Fjórða sætið vermdi bú Eggerts, Jónu, Páls og Kristínar á Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð þar sem meðalnyt árskúa var 8.443 kg. Fimmta var bú Friðriks Þórarinssonar á Grund í Svarfaðardal þar sem meðalnyt árskúnna reiknaðist 8.362 kg. Þessi fimm bú eru alveg hin sömu og fyrir mánuði síðan, en röð þriggja þeirra síðari hefur breyst.

Nythæsta kýrin sl. 12 mánuði var Smuga 465 (f. Síríus 02032) í Ytri-Hofdölum í Skagafirði sem mjólkaði 15.551 kg. Önnur í röðinni nú var Merlin 2268 (f. naut nr. 2018, sonur Húna 07041 og dóttursonur Taums 01024) í Lambhaga á Rangárvöllum en nyt hennar var 14.134 kg. á tímabilinu. Þriðja nythæst var Brá 1272 (f. Frami 05034) í Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi en sú kýr mjólkaði 14.026 kg. á síðustu 12 mánuðum. Fjórða á þessum lista að þessu sinni var Láka 1286 (f. Vatnar 11022) í Skáldabúðum í hinum forna Gnúpverjahreppi sem mjólkaði 13.777 kg. Fimmta var Píla 1288 (f. Afli 11010) í Garði í Eyjafjarðarsveit sem skilaði 13.341 kg. síðustu 12 mánuðina.

Alls náðu 150 kýr á búunum 509, sem afurðaskýrslum fyrir október hafði verið skilað frá að morgni 11. nóvember að mjólka 11.000 kg. og þar yfir á síðustu 12 mánuðum. Af þeim skiluðu 39 kýr nyt frá 12.000 kg. og þar yfir, á tímabilinu. Þar af mjólkuðu átta kýr að mjólka yfir 13.000 kg. og þrjár af þeim meira en 14.000. Sú hæsta þeirra þriggja skilaði vel yfir 15.000 kg. á umræddu tímabili eins og fram hefur komið.

Meðalfjöldi kúa á kjötframleiðslubúunum reiknaðist 25,9 en árskýrnar reiknuðust að jafnaði 20,7. Meðalkjötframleiðsla á þeim búum sl. 12 mánuði reyndist 5.169,5 kg.

Meðalfallþungi 9.148 ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, skráðra í slátrun frá öllum búum, undanfarna 12 mánuði var 248,6 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra við slátrun var 744,9 dagar.

 

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/sk