Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar í nýliðnum september

Fenrir frá Hólmi í Austur-Landeyjum, faðir hans er Risi 15014 og móðir Svala 1140.
Fenrir frá Hólmi í Austur-Landeyjum, faðir hans er Risi 15014 og móðir Svala 1140.

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar nú í nýliðnum september, hafa nú verið birtar á vef okkar. Niðurstöður skýrslnanna byggjast á skilum eins og þau voru um miðjan dag þann 11. október.

Þegar niðurstöðurnar sem nú hafa verið birtar voru reiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 486 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 122 búa þar sem var framleitt nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 23.971,0 árskýr á búunum 486 var 6.380 kg eða 6.315 kg OLM (af orkuleiðréttri mjólk) síðustu 12 mánuðina. Meðalfjöldi árskúa á fyrrgreindum búum var 49,3.

Meðalnyt árskúa síðustu 12 mánuði reiknaðist hæst, líkt og undanfarna mánuði, á búi Guðrúnar og Gunnars á Búrfelli í Svarfaðardal, 8.991 kg. Næst í röðinni, einnig eins og að undanförnu, var bú Guðlaugar og Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit þar sem meðalnyt eftir árskú var 8.743 kg. á tímabilinu. Þriðja búið, einnig hið sama og síðustu mánuði, var bú Sigurðar og Fjólu í Skollagróf í Hrunamannahreppi þar sem meðalárskýrin mjólkaði 8.482 kg. síðustu 12 mánuðina. Fjórða í röðinni nú, sama og fyrir mánuði, var bú Guðjóns og Helgu á Syðri-Hömrum 3 í Ásahreppi í Rangárvallasýslu þar sem nyt meðalárskúnna reyndist vera 8.298 kg. á tímabilinu sem um ræðir. Fimmta að þessu sinni, einnig sama bú og fyrir mánuði síðan, var bú Friðriks Þórarinssonar á Grund í Svarfaðardal þar sem meðalárskýrin skilaði nú 8.293 kg.

Nythæsta kýrin síðustu 12 mánuði var hin sama og í ágúst, Fórn 868 (f. Skalli 11023) í Flatey á Mýrum við Hornafjörð, sem mjólkaði á tímabilinu 14.958 kg. Önnur að þessu sinni var Lúsý 555 (f. Gustur 09003), einnig í Flatey, en nyt hennar reiknaðist 14.701 kg. síðustu 12 mánuði. Þriðja kýrin nú var Fata 2106 (f. Sjarmi 1290) í Skáldabúðum í hinum forna Gnúpverjahreppi, sem mjólkaði 14.292 kg. á umræddu tímabili. Fjórða kýrin að þessu sinni var Merlin 2268 (f. nr. 2018, sonur Húna 07041 og dóttursonur Taums 01024), í Lambhaga á Rangárvöllum en nyt hennar var 13.686 kg. á tímabilinu. Fimmta í röðinni var kýr nr. 967 (f. 855, sonur Kletts 08030 og dóttursonur Ótta 99029) á Moldhaugum í Hörgársveit við Eyjafjörð en hún mjólkaði 13.265 kg. á uppgjörstímabilinu.

Alls náð1 131 kýr á mjólkurframleiðslubúunum sem afurðaskýrslum fyrir september hafði verið skilað frá um miðjan dag þ. 11. október, að mjólka 11.000 kg. eða meira á síðustu 12 mánuðum. Af þeim mjólkuðu 34 meira en 12.000 kg. og þar af skiluðu sjö kýr meiri nyt en 13.000 kg. á umræddum tíma. Þrjár þeirra skiluðu nyt yfir 14.000 kg. eins og sjá má hér á undan.

Meðalfjöldi kúa á hreinu kjötframleiðslubúunum reiknaðist 26,4 en árskýrnar þar voru að meðaltali 23,0. Meðalkjötframleiðsla á þeim búum sl. 12 mánuði reyndist 5.368,7 kg.

Meðalfallþungi 9.302 ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, skráðra í slátrun frá öllum búum, undanfarna 12 mánuði var 256,2 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra við slátrun var 752,1 dagur.

 

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/sk