Niðurstöður skýrsluhaldsins í nautgriparæktinni í janúar 2019

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar í nýliðnum janúar hafa verið birtar á vef okkar. Ákveðnar breytingar voru gerðar seint á síðasta ári og kynnti Guðmundur Jóhannesson ábyrgðarmaður í nautgriparækt þær í grein á bls. 45 í Bændablaðinu þ. 1. nóvember sl. Rétt er að geta þess og hafa í huga við lesturinn að niðurstöðurnar í t.d. skýrsluhaldi mjólkurframleiðenda byggjast á skilum mjólkurskýrslna og annarra skráninga eins og staðan á þeim var um hádegisbilið þ. 11. febr. 2019.

Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 537 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 104 búa þar sem eingöngu var framleitt nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 25.382,6 árskúa á búunum 537 var 6.237 kg á síðustu 12 mánuðum. Meðalfjöldi árskúa á búunum 537 var 47,3.

Meðalnyt árskúa var mest á síðustu 12 mánuðum á búi Karls Inga og Erlu Hrannar á Hóli í Svarfaðardal, sama búi og undanfarna mánuði, þar sem meðalkýrin skilaði 8.909 kg. að jafnaði. Annað í röðinni að þessu sinni var bú Guðlaugar og Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit á Snæfellsnesi, þar sem hver árskýr skilaði að jafnaði 8.417 kg. á tímabilinu sem um ræðir. Þriðja á listanum var bú Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal, en hver árskýr þar mjólkaði nú að jafnaði 8.369 kg. Fjórða búið nú var Félagsbúið á Syðri-Grund í Grýtubakkahreppi þar sem meðalnyt árskúnna reyndist 8.266 kg. Fimmta sætið skipaði Hvanneyrarbúið í Andakíl í Borgarfirði, þar sem hver árskýr mjólkaði að jafnaði 8.250 kg. sl. 12 mánuði.

Nythæst sl. 12 mánuði var kýrin Krissa 756 (f. Baldi 06010) á Brúsastöðum í Vatnsdal en hún mjólkaði 13.596 kg. síðustu 12 mánuðina. Önnur í röðinni var kýr nr. 765 á Espihóli í Eyjafjarðarsveit, sem skilaði á tímabilinu 13.146 kg. nyt. Þriðja kýrin að þessu sinni var Randafluga 1035 (f. Boli 620 undan Kastala 07003) í Birtingaholti 4 Hrunamannahreppi með 13.063 kg.

Alls náðu 79 kýr á búunum, sem afurðaskýrslum fyrir janúar hafði verið skilað frá áður en uppgjörið var reiknað, að mjólka 11.000 kg. og þar yfir á síðustu 12 mánuðum. Af þeim skiluðu 21 yfir 12.000 kg. nyt á tímabilinu og náðu þrjár af þeim að skila meira en 13.000 kg.

Meðalfjöldi kúa á kjötframleiðslubúunum reiknaðist 21,1 en árskýrnar reiknuðust að jafnaði 17,7 og meðalkjötframleiðsla á þeim búum sl. 12 mánuði reyndist 4.882,9 kg. Meðalfallþungi allra ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, skráðra í slátrun frá öllum búum undanfarna 12 mánuði var 240,8 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra við slátrun var 738,4 dagar.

 

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/sk