Niðurstöður úr skýrslum nautgriparæktarinnar fyrir nýliðinn janúar

Abraham frá Gýgjarhólskoti í Biskupstungum, sonur Skálda 19036 og Ræmu 969. Mynd frá Nautastöðinni á…
Abraham frá Gýgjarhólskoti í Biskupstungum, sonur Skálda 19036 og Ræmu 969. Mynd frá Nautastöðinni á Hesti.

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir síðustu 12 mánuði, nú þegar janúar er nýliðinn, hafa verið birtar á vef okkar. Niðurstöðurnar byggja á þeim skýrslum sem hafði verið skilað fram undir hádegi þann 12. febrúar.
Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar hafði verið skilað mjólkurskýrslum frá 446 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 120 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 23.986,4 árskúa á búunum 446 reiknaðist 6.482 kg. eða 6.485 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk) á því 12 mánaða tímabili sem uppgjörið nær yfir. Meðalfjöldi árskúa á fyrrgreindum búum var 53,8.

Mest meðalnyt árskúa á síðustu 12 mánuðum var á búi Eyvindar og Aðalbjargar í Stóru-Mörk 1 undir Eyjafjöllum, 8.815 kg. Næst í röðinni kom bú Garðars Guðmundssonar í Hólmi í Landeyjum þar sem hver árskýr mjólkaði að meðaltali 8.604 kg. á uppgjörstímabilinu. Þriðja að þessu sinni var bú Laufeyjar og Þrastar á Stakkhamri 2 á Snæfellsnesi, þar sem meðalnytin reyndist vera 8.491 kg. eftir árskú. Fjórða var bú Guðrúnar og Gunnars á Búrfelli í Svarfaðardal þar sem meðalárskýrin mjólkaði 8.388 kg. á umræddu tímabili. Fimmta að þessu sinni var Bú Björgvins Rúnars Gunnarssonar á Núpi á Berufjarðarströnd þar sem meðalnyt árskúnna var 8.325 kg.

Nythæsta kýrin á síðustu 12 mánuðum var Skritla 963 (f. Sólon 10069) í Nesi í Höfðahverfi en nyt hennar var 14.079 kg. á tímabilinu. Önnur í röðinni var kýr nr. 988 (f. Strákur 10011) á Núpi á Berufjarðarströnd, sem mjólkaði 13.529 kg. á undanförnum 12 mánuðum. Þriðja að þessu sinni var Skjóða 610 (f. Lúður 10067) á Hnjúki, nú í Húnabyggð í Austur-Húnavatnssýslu, sem mjólkaði 13.522 kg. á áðurnefndum 12 mánuðum. Fjórða var kýr nr. 680 (f. Þróttur 17023) sem skilaði 13.491 kg. mjólkur á uppgjörstímabilinu. Fimmta var kýr nr. 605 (f. Robbi 543, sonur Hjarða 06029) í Stóru-Hildisey 1 í Landeyjum, en nyt hennar var á tímabilinu 13.473 kg.

Alls náðu 179 kýr á mjólkurframleiðslubúunum sem afurðaskýrslum fyrir janúar hafði verið skilað frá skömmu fyrir hádegi þann 12. febrúar að mjólka 11.000 kg. eða meira síðustu 12 mánuðina. Af þeim hópi mjólkuðu 47 kýr yfir 12.000 kg. og af þeim náðu sjö að skila yfir 13.000 kg. nyt á uppgjörstímabilinu. Ein hinna síðastnefndu sjö afurðahæstu kúa mjólkaði meira en 14.000 á tímabilinu eins og sjá má á því sem þegar hefur komið fram.

Meðalfjöldi kúa á þeim 120 hreinu kjötframleiðslubúum sem uppgjörið nær yfir reiknaðist 27,2 við lok janúar en árskýrnar á þeim búum voru að meðaltali 25,7. Meðalkjötframleiðsla á þessum búum reyndist 6.933,9 kg. á undanförnum 12 mánuðum.

Meðalfallþungi 9.410 ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, sem slátrað var frá öllum búunum sem uppgjörið nær yfir, hvort sem um ræðir bú þar sem stunduð var kjötframleiðsla eða mjólkurframleiðsla, eða blanda af hvoru tveggja, undanfarna 12 mánuði, var 256,4 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra gripa við slátrun var 742,9 dagar.

Athugið að skjalið sem geymir upplýsingar um fjölda dætra undan þeim nautum sem eiga fimm eða fleiri dætur á lista kúa sem skiluðu meiri en 9000 kg. nyt, er ekki uppfært í hverjum mánuði eins og bent hefur verið á áður.

Sjá nánar:

Niðurstöður úr skýrslum nautgriparæktarinnar