Niðurstöður úr skýrslum nautgriparæktarinnar í september

Keilir frá Brúnastöðum í Flóa, undan Hálfmána 13022 og Kylfu 1061.
Keilir frá Brúnastöðum í Flóa, undan Hálfmána 13022 og Kylfu 1061.

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar í nýliðnum september, hafa verið birtar á vef okkar. Niðurstöður skýrslnanna frá mjólkurframleiðendum byggjast á skilum mjólkurskýrslna og annarra skráninga eins og staðan á þeim var um hádegisbilið þ. 12. október 2020.

Þegar niðurstöðurnar sem nú hafa verið birtar voru reiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 503 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 106 búa þar sem var framleitt nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.318,8 árskúa á þessum 503 búum var 6.512 kg eða 6.812 kg OLM (af orkuleiðréttri mjólk) síðustu 12 mánuðina. Meðalfjöldi árskúa á búunum 503 var 48,3.

Meðalnyt árskúa síðustu 12 mánuði var mest á Hurðarbaksbúinu ehf. á Hurðarbaki í Flóa, þar sem meðalárskýrin skilaði 8.724 kg. síðustu 12 mánuði. Annað í röðinni var bú Guðlaugar og Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit þar sem meðalnyt árskúa reiknaðist 8.628 kg. Þriðja búið í röðinni að þessu sinni var bú Eggerts, Jónu, Páls og Kristínar á Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð en meðalnyt árskúa þar var 8.478 kg. Fjórða búið nú var bú Friðriks Þórarinssonar á Grund í Svarfaðardal þar sem meðalnyt árskúnna reiknaðist 8.416 kg. Fimmta í röðinni var bú Guðrúnar og Gunnars á Búrfelli í Svarfaðardal þar sem reiknuð meðalnyt árskúa var 8.333 kg. á tímabilinu sem um ræðir.

Nythæsta kýrin sl. 12 mánuði var Smuga 465 (f. Síríus 02032) í Ytri-Hofdölum í Skagafirði sem mjólkaði 14.621 kg. Önnur nythæst var Staka 1321 (f. Sandur 07014) í Skáldabúðum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi en nyt hennar var 13.650 kg. Þriðja í röðinni á þessum lista við lok september var kýr nr. 606 (f. Bryti 11070) á Núpi á Berufjarðarströnd, en nyt hennar var 13.225 kg. á tímabilinu. Fjórða var Píla 1288 (f. Afli 11010) í Garði í Eyjafjarðarsveit sem skilaði 13.220 kg. síðustu 12 mánuðina. Fimmta kýrin að þessu sinni var Merkel 1480 (f. Úranus 10081) en hún mjólkaði 13.213 kg.

Alls náðu 156 kýr á búunum 503, sem afurðaskýrslum fyrir september hafði verið skilað frá um hádegisbil þ. 12. október að mjólka 11.000 kg. og þar yfir á síðustu 12 mánuðum. Af þeim skiluðu 37 kýr nyt yfir 12.000 kg. á tímabilinu og af þeim náðu átta kýr að mjólka 13.000 kg. og þar yfir. Ein þeirra mjólkaði síðan umtalsvert meira en 14.000 kg. á umræddu tímabili eins og fram hefur komið.

Meðalfjöldi kúa á kjötframleiðslubúunum reiknaðist 26,6 en árskýrnar reiknuðust að jafnaði 21,2. Meðalkjötframleiðsla á þeim búum sl. 12 mánuði reyndist 5.398,3 kg.

Meðalfallþungi 9.315 ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, skráðra í slátrun frá öllum búum, undanfarna 12 mánuði var 247,1 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra við slátrun var 745,7 dagar.

 

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/sk