Í gær fór í loftið uppfærsla á Fjárvís.is en í þetta skiptið kemur meðal annars ný gripaleit til notkunar. Gamla gripaleitin var með mjög mikið af upplýsingum og orðin ansi hæg. Því var tekið til í henni og upplýsingum fækkað sem sóttar eru í hvert skipti, sem hraðar leitinni töluvert.
Upplýsingarnar sem teknar voru út tapast þó ekki heldur færast einungis á aðra staði í kerfinu, til dæmis í kynbótamatsyfirlit og nýtt afkvæmayfirlit, sem má finna undir flipanum Yfirlit efst á síðunni. Í kynbótamatsyfirlitinu er til dæmis hægt að nálgast upplýsingar um fjárræktarfélagshrúta og sæðingastöðvahrúta, en þeir færast þangað úr gripaleitinni.
Annað yfirlit sem bændur hafa ekki séð áður er yfirlit yfir flaggaða gripi. Eins og heitið gefur til kynna er þar um að ræða yfirlit yfir gripi sem bera flögg. Þar er á einfaldan hátt hægt að færa lista yfir gripi í excel þar sem flöggin fylgja gripunum og auðvelt er að prenta út lista með flöggum.
Sjón er sögu ríkari og eru bændur hvattir til að prufa og skoða þessar betrumbætur.
/okg