Ný naut að koma í notkun

Kaldi 21020 frá Hraunhálsi sem er yngsta nautið í notkun núna, aðeins 21 mánaða gamall. Mynd: NBÍ
Kaldi 21020 frá Hraunhálsi sem er yngsta nautið í notkun núna, aðeins 21 mánaða gamall. Mynd: NBÍ

Fagráð í nautgriparækt fundaði í gær og ákvað að taka fimm ný naut til notkunar en úr notkun fara 10 naut. Þannig verða naut í notkun samtals 17 næstu vikurnar. Ný naut í notkun verða Kollur 18039 frá Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum (f. Skalli 11023), Bússi 19066 frá Búvöllum í Aðaldal (f. Steri 13057), Bersi 20004 frá Birtingaholti 1 í Hrunamannahreppi (f. Hálfmáni 13022), Hengill 20014 frá Klauf í Eyjafirði (f. Ýmir 13051) og Kaldi 21020 frá Hraunhálsi í Helgafellssveit (f. Risi 15014). Áfram er unnið samkvæmt þeirri reglu að dreifa faðerni nautanna eins og kostur er.

Þau naut sem fara úr notkun eru Bikar 16008, Jarfi 16016, Herkir 16069, Þróttur 17023, Óberon 17046, Barón 17050, Ítali 17056, Beykir 18031, Samson 19060 og Svarfi 20027. Þau eru ýmist fullnotuð eða notkun síðustu vikna verið fremur dræm.

Upplýsingar um þessi naut er að finna á nautaskra.is undir Naut > Naut í notkun.  Þar er einnig að finna upplýsingar um þau naut sem fara núna úr notkun en þau eru komin undir Naut > Naut úr notkun. Þá er hægt að nota leitina til að finna einstök naut.

Við biðjum menn að sýna þolinmæði gagnvart framboði í kútum frjótækna. Það tekur tíma að koma þessum nautum í dreifingu og útsending sæðis er nokkuð sem gerist ekki á sjálfvirkan hátt. Það mun því líða einhver tími þar til allir frjótæknar verða komnir með þessi nýju naut í kúta sína. Á meðan er um að gera að skoða nautin og vega og meta kosti þeirra og galla.