Ný naut í ársbyrjun 2024

Flammi 22020 frá Króki í Biskupstungum. Mynd: NBÍ
Flammi 22020 frá Króki í Biskupstungum. Mynd: NBÍ

Í næstu viku koma til notkunar 5 ný naut og til tíðinda verður að teljast að hér er um að ræða fyrstu nautin sem valin voru á stöð á grunni arfgreiningar og erfðamats. Hér er því verið að stíga enn eitt skrefið í innleiðingu erfðamengisúrvalsins. Þessi naut eru; Flammi 22020 frá Króki í Biskupstungum undan Bikar 16008 og 573 Kláusardóttur 14031, Strókur 22023 frá Stóru-Reykjum í Flóa undan Herki 16069 og Brynju 884 Kláusardóttur 14031, Drungi 22024 frá Neðri-Þverá í Fljótshlíð undan Mikka 15043 og 1065 Úranusdóttur 10081, Krummi 22025 frá Neðri-Þverá í Fljótshlíð undan Bússa 19066 og 1169 Piparsdóttur 12007 og Þrymur 22027 frá Stóra-Ármóti í Flóa undan Tanna 15065 og Tröllu 1543 Búkkadóttur 17031. Hér er um að ræða geysiöflug naut sem standa í 112 og 113 í heildareinkunn.

Á sama tíma lýkur notkun á þeim Bússa 19066, Billa 20009, Garpi 20044 og Svarfdal 22006 ýmist vegna þess að þeir eru búnir að vera lengi í notkun eða þeir eru samfeðra þeim nautum sem nú koma inn.

Eins og áður sagði koma þessi naut í kúta frjótækna í næstu viku á flestum svæðum og síðan koll af kolli eftir því sem útsendingu fram vindur frá Nautastöðinni. Nú þegar notkun nauta sem valin voru á grunni erfðamengis er hafin er þess að vænta að ný naut komi til notkunar örar en verið hefur. Þannig kann listi nauta í notkun að taka breytingum á 4-8 vikna fresti.

Upplýsingar um nautin er að finna á nautaskra.is.