Skýrsla um afkomu kúabúa 2021-2023

Kvígur á Laxamýri síðsumars. 
           Mynd: Atli Vigfússon.
Kvígur á Laxamýri síðsumars.
Mynd: Atli Vigfússon.

Út er komin skýrsla hjá RML um rekstur og afkomuþróun kúabúa fyrir árin 2021-2023. Sú skýrsla er unnin út frá rekstrargögnum 187-192 kúabúa af landinu öllu sem endurspeglar um 45-49% af heildarmjólkurinnleggi landsins, vaxandi eftir árum. Það hlutfall ásamt samanburði við gögn frá fyrri árum bendir til að gagnasafnið gefi góða mynd af stöðu og þróun í greininni.

Í skýrslunni er m.a. skoðað samhengi afurðasemi og framleiðslukostnaðar en þar munar ríflega 29 kr./ltr á milli afurðahæstu og afurðalægstu búanna og er greinilegt að hér geta verið sóknarfæri í rekstri. Sérstaklega var skoðuð nýting ræktunarlands og áhrif hennar á breytilegan kostnað. Sterkar vísbendingar eru um jákvætt samhengi aukinnar afurðasemi og uppskeru við lægri framleiðslukostnað mjólkur.

Skuldsetning þátttökubúanna hefur vaxið verulega á árunum 2021-2023 og skulda umrædd bú um 27,1 milljarða króna í árslok 2023. Jákvæðu fréttirnar eru að skuldahlutfallið hefur farið lækkandi milli ára vegna aukinnar heildarveltu búanna og er um 1,5 í árslok 2023. Fjármagnsliðir voru þá að jafnaði um 34,5 kr./ltr en mikill munur er á búum eftir skuldaflokkum.

Framlegðarstig í mjólkurframleiðslu hækkaði á árinu 2023 og hlutfall rekstrarafgangs (EBITDA) af heildarveltu fer vaxandi. Hlutfallið fór úr 26,3% árið 2021 og upp í 30,1% á árinu 2023 sem er afskaplega jákvætt.

Þegar er hafin gagnasöfnun fyrir rekstrarárið 2024 og eru núverandi þátttakendur sem og nýir boðnir velkomnir inn í áframhaldandi greiningarvinnu.

Skýrsluna má finna hér.