Ný uppspretta fundin af ARR genasamsætunni

Staðfest hefur verið að ARR genasamsætan, sem hefur verndandi áhrif gegn riðuveiki, hefur nú fundist í gripum sem óskildir eru Þerununesfénu.

Á bænum Vífilsdal í Hörðudal í Dalasýslu, greindist ARR í hrútlambi í haust sem á ekki foreldra sem vitað var að bæru ARR. Í framhaldinu var greint sýni úr móðir hrútsins og reyndist hún bera ARR. Nú er búið að tvígreina bæði hrútinn og móður hans og því ljóst að fundin er ný ættarlína sem ber þennan verndandi breytileika. 

Lambhrúturinn heitir Vörður 23-459, faðir hans er Tónn 18-855 frá Melum. Móðir hrútsins, ær nr. 16-189, er dóttir kaupahrúts, Bagga 12-441 frá Heydalsá og undan á af heimakyni.

Þetta eru stórkostleg tíðindi fyrir ræktunarstarfið. Nú eru rétt um tvö ár síðan ARR fannst í fyrsta skipti í íslenskir kind en það var á bænum Þernunesi við Reyðarfjörð. Að bætist loks við önnur upphafshjörð gensins mun auðvelda verulega verkefnið framundan sem er að innleið verndandi arfgerðir í stofninn í heild.

Á bænum Vifilsdal er rekið myndar fjárbú, en þar eru um 500 kindur á vetrarfóðrum og afurðir góðar. Næsta skref verður að kortleggja þessa hjörð nánar og freista þess að finna fleiri erfðafræðilega gullmola.

/okg