Nýjasta útgáfa af FANG-appinu

FANG-appið, til að panta kúasæðingar og fangskoðanir, var uppfært fyrir rúmlega viku og er nýjasta útgáfa númer 1.0.99. Við hvetjum alla til að uppfæra appið sem fyrst en í þessari útgáfu eru nokkrar gagnlegar nýjungar. Fyrst skal telja að nú er hægt að velja sæðistegund í pöntunarferlinu, þ.e. venjulegt sæði, Spermvital-sæði, X-sæði og Y-sæði. Sé ekkert valið er álitið sem svo að óskað sé eftir að nota venjulegt sæði. Þeir bændur sem láta gera fyrir sig pörunaráætlanir þurfa ekki að velja sæðistegund en appið les það beint úr pörunaráætluninni ásamt tillögu að nautum. Önnur nýjung er að hægt er að panta fyrir fleiri en einn grip í einu í sama pöntunarferlinu. Þetta gerir notkun mun þægilegri en áður en sem dæmi er nú mjög handhægt að panta fangskoðun fyrir hóp gripa. Þriðja nýjungin, sem við nefnum hér, er að appið lætur nú vita ef pöntuð er sæðing á kú sem bar fyrir minna en 60 dögum og er því kannski fullsnemmt að sæða.

Leiðbeiningar fyrir FANG-appið hafa verið uppfærðar, sjá hlekk hér fyrir neðan.

Við vonum að þessar nýjungar komi að góðum notum og séu til bóta við notkun á appinu.

Sjá nánar:
FANG-app: Leiðbeiningar