Nýjung í WorldFeng - Viðbót við leitarmöguleika: DMRT3 arfgerð

Í síðustu viku var bætt við leitarmöguleika bæði í Ítarlegri leit og Dómaleit í WorldFeng þar sem notendur geta nú leitað eftir hrossum með upplýsingar um DMRT3 arfgerð til viðbótar við aðra leitarmöguleika sem stóðu til boða áður. Bæði er hægt að leita eftir hrossum með arfgerðargreiningu í DMRT3 erfðavísinum (hvort þau séu með AA, CA eða CC arfgerð) og einnig hrossum sem eru með útreikning á líkum á þessum arfgerðum. Auka þessir leitarmöguleikar við nýtingu WorldFengs og einnig möguleika ræktenda á því að nýta sér þessar verðmætu upplýsingar í sínu ræktunarstarfi. Ef Dómaleitin er tekin sem dæmi er nú til dæmis hægt að leita eftir stóðhestum sem er á lífi, staðsettir á Íslandi, með ákveðnar einkunnir í byggingu og hæfileikum og AA, CA eða CC arfgerð.

Þegar leitað er eftir hrossum með arfgerðargreiningu þá er búið að staðfesta arfgerð hestsins með arfgerðargreiningu og því er arfgerð hestsins vituð með vissu. Þegar líkur á arfgerð eru birtar er um hross að ræða sem eru með 100% öryggi á útreikningnum og því hægt að byggja töluvert á þeim upplýsingum. Líkur á tiltekinni arfgerð eru þá reiknaðar á grunni upplýsinga úr kynbótadómum á einstaklingnum sjálfum og/eða skyldum hrossum. Það hefur þó verið sýnt fram á að 1 af hverjum 10 hrossum sem hefur 100% öryggi á spánni eru engu að síður með ranga spá en það getur verið vegna rangra ættfærsla eða óöryggis í spá um arfgerð hrossa sem sýnd eru sem klárhross. Þetta hlutfall mun lækka er upplýsingar um fleiri arfgerðargreind hross liggja fyrir. (Þegar hross eru með spurningarmerki á grunnsíðu sinni, þýðir það að hvorki er búið að arfgerðargreina hrossið eða að það er ekki hægt að meta líkur á DMRT3 arfgerð með 100% öryggi). Vegna þessa er mælt með því að arfgerðargreina öll klárhross. Upplýsingar um arfgerð með tilliti til DMRT3 erfðavísis eru afar gagnlegar í ræktunarstarfinu, sérstaklega þegar verið er að para saman klárhross og arfgerðargreining á klárhrossum ætti að vera reglubundinn hluti af starfi ræktenda. Greinar um skeiðgenið og áhrif arfgerða í DMRT3 erfðavísinum má finna hér á heimasíðunni í gegnum tengil hér að neðan. 

Sjá nánar

DNA sýni - Skeiðgen

þk/okg