Nýr samningur um ráðgjöf til nýliða í lífrænni ræktun

Í síðustu viku var undirritaður samningur um ráðgjöf til nýliða í lífrænni ræktun en töluverð eftirspurn hefur verið eftir slíkri ráðgjöf meðal nýliða. Það voru Karvel L. Karvelsson framkvæmdastjóri RML og Eygló Björk Ólafsdóttir, formaður Félags framleiðenda í lífrænni landbúnaðarframleiðslu (VOR), sem undirrituðu samninginn.

Þeir sem teljast nýliðar skv. þessum samningi eru þeir aðilar sem eru í frumframleiðslu í landbúnaði og eru í aðlögunarferli að lífrænni ræktun samkvæmt samningi við vottunarstofu eða á fyrstu þremur árum vottaðrar framleiðslu.

Fjármögnun verkefnisins verður með þeim hætti að notaður verður hluti af því fjármagni sem úthlutað hafði verið til aðlögunarstuðnings til eflingar lífrænnar framleiðslu hér á landi, árið 2017.

Ráðgjafi frá RML ásamt einum starfandi bónda í lífrænum búskap, viðurkenndum af VOR munu sinna ráðgjöfinni. Ráðgjöfin fer þannig fram að nýliði fær heimsókn þar sem hann er aðstoðaður við að sjá út tækifæri varðandi skilvirkni, framleiðsluaðferðir og hvernig hægt sé að nýta best þá kosti sem framleiðslustaðurinn býður upp á.

Verkefnið er hugsað sem tilraunaverkefni frá 1. október 2019 til eins árs. Nýliðar geta sótt um ráðgjöf með því að senda erindi til VOR en einnig er hægt að leita nánari upplýsinga hjá VOR og RML varðandi verkefnið.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Karvel L. Karvelsson og Eygló Björk Ólafsdóttur við undirritun samningsins.
Myndin er fengin hjá Bændablaðinu. 

klk/okg