Tumi 24014. Mynd: NBÍ.
Nú heilsar nýja árið með átta nýjum nautum í notkun og á sama tíma fara níu naut úr dreifingu. Þau naut sem koma ný inn eru Sjafnar 24007 frá Syðri-Bægisá í Öxnadal, sonur Billa 20009 og Sjafnar 901 Knattardóttur 16006, Oddi 24008 frá Hólmahjáleigu í Landeyjum, undan Hengli 20014 og Oddu 1707 Piparsdóttur 12007, Alur 24009 frá Dæli í Fnjóskadal, undan Pinna 21029 og 1306 Knattardóttur 16006, Jöfur 24010 frá Káranesi í Kjós, undan Skálda 19036 og Stöku 1006 Jötunsdóttur 17026, Tumi 24014 frá Káranesi í Kjós, undan Garpi 20044 og Hildi 1222 Knattardóttur 16006, Andi 24015 frá Brúnastöðum í Flóa, undan Ægi 22010 og Krukku 1237 Kunningjadóttur 11002, Versalur 24017 frá Göngustöðum í Svarfaðardal, undan Garpi 20044 og Nancy 719 Piparsdóttur 12007 og Nemó 24018 frá Hvanneyri í Andakíl, undan Banana 20017 og Eyrarrós 2126 Hælsdóttur 14008.
Á sama tíma fara Smali 23024, Brími 23025, Brúsi 23026, Kuldi 23027, Snær 23028, Flóki 23031, Markaður 23034, Farsæll 23035 og Hrollur 24005 úr dreifingu þó svo enn verði þeir til í kútum hjá einhverjum frjótæknum um hríð.
Af þessum átta nýju nautum stendur kyngreint sæði, X-sæði sem gefur kvígur, til boða úr Sjafnari 24007, Odda 24008, Al 24009, Jöfri 24010, Tuma 24014, Versal 24017 og Nemó 24018 og Spermvital-sæði er til úr Odda 24008, Al 24009 og Jöfri 24010.
Þessi breyting mun ganga yfir á nokkrum vikum og nú þurfa menn að lesa vandlega.
Þetta sæði kemur til dreifingar á Vesturlandi og sunnverðum Vestfjörðum næstu daga sem og hluta Húnaþings (svæði Gunnars). Í Eyjafirði og S-Þing. verða nautin komin í kúta frjótækna föstudaginn 9. janúar, í A-Skaft. á sæðið að koma allra næstu daga og það sama á við um Skaftárhrepp í V-Skaft. Á Suðurlandi verður þetta sæði komið í kúta frjótækna miðvikudaginn 14. janúar. Norðanverðir Vestfirðir, Húnaþing (svæði Ólafs), Skagafjörður, Vopnafjörður og Austurland (svæði Gests) þurfa að bíða til síðustu viku janúar og Húnaþing (svæði Gísla) og Austurland (svæði Rune) þar til í fyrri hluta febrúar. Hægt er að fylgjast með hvenær fyllt er á kúta frjótækna í Huppu, þar sem farið er í skýrslur og sæðisáfylling hjá frjótæknum. Þar er svo viðkomandi frjótæknir valinn og þá kemur listi með þeim nautum sem send voru til áfyllingar. Dags. sem fram kemur er sendingardags. frá Hesti þannig að einhverjir dagar líða þar til sæðið er komið á áfangastað.
Í FANG-appinu er listinn með nautum í notkun uppfærður miðað við þessa breytingu. Það þýðir að vilji menn panta önnur naut en fram koma á listanum þarf að leita að nautinu og velja það þannig þar sem það birtist ekki sjálfgefið á listanum. Þetta á t.d. við um þau svæði þar sem nautin eru ekki komin í notkun.
Við sendum svo bestu óskir um gleðilegt ár með þökkum fyrir það nýliðna.