Nýtt fjós á Snorrastöðum

Á Snorrastöðum í Borgarbyggð hafa feðgarnir Kristján Ágúst Magnússon og Magnús Kristjánsson unnið að fjósbyggingu í vetur. Byggingin er 777 fermetra viðbygging við 559 fermetra nautaeldis- og fjárhús sem byggt var 2009. Samtals mun nýja fjósið á Snorrastöðum því verða 1.336 fermetrar að stærð og mun rúma 65 kýr ásamt uppeldi. Einnig er pláss fyrir nautaeldi sem stundað hefur verið með góðum árangri undanfarin ár. Byggingin er byggð úr steyptum einingum með límtrés sperrum og yleiningum í þaki. Framkvæmdir við jarðvinnu hófust í september síðastliðnum og fyrsta steypa rann í mót 10 nóvember. Steypuvinna, frágangur á þaki, gluggum og hurðum lauk að mestu leyti 22. maí síðastliðinn. Nú er komið að málningarvinnu innandyra, raf- og pípulagnavinnu ásamt uppsetningu á innréttingum og tækjum. Áformað er að fjósið verði tekið í notkun seinna í sumar.

RML hefur aðstoðað feðgana á Snorrastöðum á öllum stigum framkvæmdanna, allt frá hugmyndavinnu í byrjun, samningaviðræður við byggingaraðila, aðstoð við innflutning á byggingarefni og hagsmunagæslu á byggingartímanum. Samstarfið hefur verið gott fyrir alla sem komu að framkvæmdinni og nú er risin hin glæsilegasta bygging eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

sg/okg